Beint í efni

Frjótæknarnir ráðleggja um smitvarnir

21.03.2015

Undanfarin ár hefur orðið mikil vakning meðal kúabænda um alla Evrópu um mikilvægi smitvarna. Í því sambandi skipta smitvarnir þjónustuaðila kúabænda gríðarlega miklu máli, sér í lagi þeirra sem fara títt á milli búa eins og dýralækna og frjótækna. Þó svo að það heyri vissulega til undantekninga, þá gerist það t.d. enn í fjósum erlendis að dýralæknar og frjótæknar keyra bíla sína jafnvel inn á fóðurganga með tilheyrandi smithættu.

 

Vegna hættu á að farartæki og einstaklingar geti flutt smit eins og t.d. kúaskitu á milli búa hefur orðið mikil vitundarvakning meðal þeirra sem þjónusta kúabú, en betur má ef duga skal og því hafa nú frjótæknar VikingGenetiks fengið sérstaka menntun í smitvörnum.

 

Frjótæknarnir fara jú í lang flest fjós og það stundum oft í viku og því eru vart til betri boðberar tíðinda. VikingGenetiks, sem er með starfstöðvar víða á Norðurlöndum, ákvað því að fela frjótæknunum að gera úttektir á kúabúunum og benda kúabændunum á leiðir til þess að bæta smitvarnir búa sinna.

 

Hér má sjá afar fínan inngang í fjós, þar sem smitvarnir hafa verið hafðar í hávegum

 

Þetta átak hefur gengið afar vel og hefur leitt til ákveðinnar vitundarvakningar meðal kúabænda, sérstaklega um mikilvægi þess að verja bú sín mögulegum áföllum. Jafnframt gera kúabændurnir núorðið ríkari smitvarnarkröfur til þeirra sem þjónusta búin, hvort sem er um þjónustuaðila mjaltatækja, ráðunauta, dýralækna eða aðra að ræða/SS.