Beint í efni

FrieslandCampina segir upp fólki

08.01.2016

Við sögðum frá því skömmu fyrir jól að hollenska afurðafélagið FrieslandCampina hefði ”losað” sig við rúmlega 400 belgíska kúabændur, en enginn þeirra var félagsmaður í hollenska framleiðendasamvinnufélaginu. Nú hefur svo félagið tilkynnt um niðurskurð í starfseminni og hefur verið ákveðið að loka afurðastöðinni í Limmen en afurðastöðin er sérhæfð í vinnslu á lífrænni drykkjarmjólk og hefur til þessa selt hana undir merkjum Zuiver Zuivel en það er all vel þekkt vörumerki.

 

Þegar FrieslandCampina hefur lokað afurðastöðinni verður vörumerkið Zuiver Zuivel selt svo það mun áfram verða í framleiðslu en félagið ætlar að draga sig að fullu út af hinum lífræna neytendamarkaði en áfram selja lífrænt vottaðar mjólkurvörur í stóreldhús og veitingastaði. Þá hefur félagið tilkynnt að það ætli að hagræða í rekstri sínum í Hollandi og m.a. færa alla ostaframleiðslu í einungis tvær vinnslustöðvar í landinu. Vegna þessara hagræðingaaðgerða þarf þó að fjárfesta í nýjum búnaði og byggingum en ætlað er að kostnaðurinn muni nema 30 milljónum evra eða um 4,2 milljarða íslenskra króna/SS.