FrieslandCampina og Arla hækka mjólkurverð
23.05.2013
Tvö af stærstu mjólkursamlögum Evrópu, FrieslandCampina og Arla Foods hafa nýlega tilkynnt umtalsverðar hækkanir á mjólkurverði til bænda. Sem kunnugt er hafa kúabændur á meginlandinu átt heldur erfiða daga undanfarin misseri sökum lágs mjólkurverðs. Hollenska félagið FrieslandCampina, sem gefur út verð á mjólk til bænda mánaðarlega, tilkynnti þann 6. maí sl. að mjólkurverð yfirstandandi mánaðar yrði 39,5 evrusent pr. kg eða sem 61,30 kr pr. líter. Miðað er við mjólk með 4,41% fitu og 3,47% prótein. Fyrir mjólk með slíkt efnainnihald myndi íslenskur framleiðandi fá tæplega 86 kr/ltr. Hækkunin hjá Friesland frá aprílmánuði er 2,5 evrusent á kg mjólkur eða 6,8%. Það vekur athygli að próteinþátturinn hækkar aðeins um 1,6%, á meðan fituþátturinn hækkar um 13,3% milli mánaða. Ástæðu hækkunar á mjólkurverði til bænda segir félagið vera miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði mjólkurafurða; nýmjólkurdufti og undanrennudufti, mysudufti og smjöri á undanförnum mánuðum. Þær hækkanir séu afleiðingar af minnkandi framboði á heimsvísu.
Þá kynnti Arla Foods hækkun á mjólkurverði til bænda í gær, 22. maí, um 15 danska aura pr. kg eða 3,20 kr/ltr. Félagið greiðir því frá og með 1. júní n.k. 2,83 dkk pr. kg eða sem nemur 59 ikr/ltr. Ofan á það verð eiga eftir að bætast arðgreiðslur. Fyrir lífræna mjólk greiðir félagið 3,38 kr/kg eða sem nemur rúmlega 70 ikr/líterinn. Félagið tilgreinir sömu ástæður fyrir hækkuninni og Friesland, en jafnframt að líkur standi til að verðið hafi náð hámarki og verði stöðugt næstu mánuði.
Í viðtali við Landbrugsavisen sá formaður Landsforeningen af Danske Mælkeproducenter, hinn hálf-íslenski Kjartan Poulsen, ástæðu til að fagna þessu útspili Arla Foods, sem nú væri að nálgast það afurðaverð sem FrieslandCampina greiðir.
Í þessu samhengi er ekki úr vegi að minna á ályktun síðasta aðalfundar um útflutningsmál, sem hljóðar svo:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, lýsir áhyggjum af því lága skilaverði sem verið hefur á mjólk umfram greiðslumark og skorar á stjórnir Auðhumlu svf. og Mjólkursamsölunnar ehf. að auka til muna áherslu á markaðssetningu mjólkurafurða á erlendum vettvangi, í þeim tilgangi að hækka skilaverð til framleiðenda.