Beint í efni

FrieslandCampina með eigið ”kvótakerfi”

04.01.2016

Afurðafélög heimsins notast við ólíkar aðferðir þegar kemur að því að ákvörðunum um kaup á mjólk frá kúabændum í þeim löndum þar sem ekki er kvótakerfi. Flest þeirra taka einfaldlega við allri mjólk sem kemur og skila svo til bænda því afurðastöðvaverði sem unnt er að ná út frá sölu mjólkurvaranna. Önnur reyna að takmarka innvigtun sína við núverandi stöðu þeirra á markaði og enn önnur reyna að draga úr innvigtun mjólkur séu markaðir að tapast.

 

Hollenska félagið FrieslandCampina er í síðastnefnda flokkinum sem kemur nokkuð á óvart enda stórt og mikið afurðafélag. Skýringin felst reyndar í því að félagið er ekki með næga vinnslugetu fyrir alla þá mjólk sem kemur um þessar mundir og vegna þess kynnti stjórn félagsins nú fyrir áramótin nýtt kerfi sem hefur nú verið sett á tímabundið, til þess að draga úr innvigtun mjólkurinnar.

 

Kerfið er þannig byggt upp að haldi félagsmaður félagsins sig innan við framleiðslu í sama mánuði á síðasta ári, þá greiðir félagið 2 evrur í bónus fyrir hver 100 kg. mjólkur eða sem svarar til 2,8 krónum á hvert kíló mjólkur. Árið 2015 jókst innvigtun til félagsins um 6,4% miðað við fyrra ár og er fyrirséð að ef aukningin nú verður eins, þá hefur félagið ekki næga vinnslugetu. Eins og áður segir er um tímabundna lausn að ræða og gildir þetta bónuskerfi frá 1. janúar til 11. febrúar nk. en þá er talið að vinnslugetan verði á ný nógu öflug til þess að taka við allri mjólk félagsmanna. Þess má geta að afurðastöðvaverð félagsins nú í janúar eru 29,25 evrur á hver 100 kíló mjólkur eða um 41,2 krónur á kílóið/SS.