FrieslandCampina í sókn
28.09.2011
Í síðustu viku sögðum við frá því að rekstur Arla virðist vera í mikilli sókn miðað við uppgjör fyrstu sex mánuði ársins. Nú eru fleiri félög að kynna sambærilegar tölur og hollenska afurðafélagið FrieslandCampina er þar engin undantekning. Félagið jók veltu sína um 9,3% fyrstu sex mánuði ársins og nam heildarveltan 4,7 milljörðum evra (755 milljörðum íslenskra króna). Samkvæmt tilkynningu félagsins felst gott gengi fyrst og fremst í hækkuðu verði á heimsmarkaði og aukinni eftirspurn eftir vörum félagsins, sér í lagi í Asíu og Afríku.
Líkt og önnur samvinnufélög framleiðenda hefur félagið þegar skilað hluta af bættu gengi út til sinna eigenda, kúabændanna, og er nú afurðaverðið 32,63 evrusent (52,49 íkr/kg) og hefur það hækkað um 19% á árinu.
Til þess að setja veltutölurnar í samhengi má geta þess að hagnaður félagsins fyrstu sex mánuði ársins nam 20,5 milljörðum króna sem er 18,6% minni hagnaður en var af starfseminni á sama tíma árið 2010. Að sögn forsvarsmanna félagsins skýrist það af stórauknum fjárfestingum, m.a. í framleiðslulínum fyrir ýmiskonar barnamat/SS.