FrieslandCampina hagræðir í Rúmeníu
27.06.2014
Undanfarin misseri og ár hafa borist fregnir af uppkaupum og yfirtöku margra stórra ólíkra afurðastöðva á öðrum slíkum, en þessi stóru félög þurfa einnig stundum að fara í miklar hagræðingaraðgerðir til þess að vera samkeppnisfær. Þetta gildir svo sannarlega einnig um hið hollenska samvinnufélag FrieslandCampina, en stjórn þess hefur ákveðið að hagræða verulega starfsemi félagsins í Rúmeníu.
Félagið mun hætta framleiðslu á ostum í afurðastöð sinni í bænum Carei og einnig verður pökkunarstöð félagsins í bænum Targu lokað. Starfsemin verður þó ekki lögð niður að fullu heldur verður hluti framleiðslunnar sameinaður í afurðastöð félagsins í bænum Baciu.
Ástæða þessara aðgerða er samdráttur í sölu mjólkurafurða til almennings í Rúmeníu, en alls hefur salan dregist saman um 6% á ári síðustu ár. Þessi þróun í landinu er nokkuð ólík því sem gengur og gerist í öðrum löndum Evrópu en í fréttatilkynningu félagsins segir að markaðsaðstæður í landinu sé afar erfiðar nú um stundir vegna lítillar kaupgetu almennings/SS.