Friesland-Campina hækkar mjólkurverð um 12%
04.11.2009
Eftir mjög erfiða mánuði fyrir mjólkurframleiðendur á meginlandi Evrópu, virðist landið smám saman tekið að rísa. Hollenski mjólkurrisinn Friesland-Campina hefur nú tilkynnt að mjólkurverð til bænda hækki frá síðustu mánaðamótum um 12,2%, eða um 3,25 € pr. 100 kg mjólkur. Verðið í nóvember verður því 29,75 € pr. 100 kg mjólkur. Það miðast við mjólk með 4,41% fitu og 3,47% próteini. Verðið hefur hækkað um rúman fjórðung síðan í júlí er það var hvað lægst.
Ef þetta verð er reiknað yfir í íslenskar krónur, þá nemur það 52,75 kr pr. líter. Afurðastöðvaverð mjólkur hér á landi, með sama efnainnihaldi væri 74,86 kr pr. ltr.