FrieslandCampina fjárfestir í rannsóknum
12.01.2012
Fimmta stærsta afurðafélag í heimi, FrieslandCampina, hefur nú hafið uppbyggingu á 60 milljóna evra (9,5 milljarðar Íkr) rannsóknar- og þróunarsetri við hinn heimsþekkta landbúnaðarháskóla Wageningen í Hollandi. Framkvæmdir munu standa yfir næstu tvö árin en markmið þessa mikla frumkvöðaseturs verður að þróa vörur, þjónustu og umbúðir fyrir FrieslandCampina.
Frumkvöðlasetrið verður alls 4.600 fermetrar að stærð auk 6.000 fermetra tilraunarýmis fyrir nýjar mjólkurvörur og pökkunarbúnað í þróun. Auk þess verður byggt 7.000 fermetra skrifstofurými sem mun rúma þá rúmlega 400 starfsmenn sem þarna munu hafa aðstöðu. Þarna verður einnig komið upp sérstakri aðstöðu til móttöku gesta og einnig verður viðskiptafélögum FrieslandCampina boðin aðstaða til prófunar á eigin vörum/SS.