Beint í efni

Fréttir frá Nautís, Stóra-Ármóti

20.06.2023

Þann 20 apríl sl. hófst burður hjá Nautís og hafa síðan þá fæðst 15 kálfar, 6 kvígur og 9 naut. Flestir kálfarnir eða tólf þeirra eru undan Laurens av Krogdal, tveir undan Jens av Grani og einn undan Manitu av Höystad. Kvígan undan Manitu av Höystad er með öðru yfirbragði en hinir kálfarnir, stærri og háfættari en von er á þremur kálfum til viðbótar, undan Manitu av Höystad.    

Í öðrum fréttum er það að segja að sæðistakan er hafin og náðist sæði úr þremur af fjórum nautum fyrsta daginn. Sæðistakan mun halda áfram næstu vikurnar og reynt verður að skola fósturvísum úr fjórum kvígum nú í byrjun júlí.

Nú á í upphafi sumars verða 4 naut og 7 kvígur boðin til kaups hjá Nautís. Kynning á þeim mun fara fram í Bændablaðinu sem kemur út næstkomandi fimmtudag, 22. júní. Nautin og flestar kvígurnar eru undan Laurens av Krogdal sem gefur lágfætta en holdmikla gripi. Allir virðast gripirnir meðfærilegir með gott geðslag þó eðlilega sé einhver munur á þeim. Gripirnir hafa verið metnir af ráðunautum RML sem nýlega fóru til Noregs að læra að meta holdagripi. Nánari upplýsingar um kaupin munu birtast síðar.