
Fréttir af aðalfundi Nautís
27.05.2022
Aðalfundur Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands (Nautís) var haldinn mánudaginn 23. maí sl. á Stóra-Ármóti. Var fundurinn einkar vel heppnaður en í upphafi fundar gafst fundarmönnum færi á að sjá einangrunarstöðina og gripina, sem þar dvelja, álengdar þar sem þeir viðruðu sig úti í blíðskapar veðri. Flestar kýrnar voru bornar en 15 kálfar voru fæddir, 9 kvígur og 6 naut, þar af tveir rauðir á lit. Von er á þremur kálfum til viðbótar. Burðurinn hefur gengið vel, gripirnir eru rólegir og ræktunarstarfið heldur áfram af krafti þar sem sæðistaka úr hreinræktuðum Angus nautum fæddum 2021 hefst á næstunni og búið er að panta 50 sæðisskammta frá Noregi úr tveimur nautunum. Alls eru 46 holdagripir í eigu Nautís, þar af þrír utan einangrunarstöðvarinnar og þrír kálfar væntanlegir. Stefnt er á að selja sjö hreinræktuð naut í sumar, tvær hreinræktaðar fengnar Angus kvígur og þrjár kvígur sem eru að koma úr einangrun.
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands var byggð árið 2015 þegar samþykkt var að flytja mætti inn erfðaefni holdanauta. Stífar kröfur eru gerðar um allt sem að innflutninginum snýr, jafnt útbúnað einangrunarstöðvarinnar sem og þess erfðaefnis sem flutt er inn. Erfðaefnið má einungis koma frá ákveðinni ræktunarstöð í Noregi og einungis úr gripum sem fæddir eru í Noregi. Það byggist á því að heilsufar nautgripa í Noregi er með því besta sem þekkist. Því var við hæfi að fá tvo norska sérfræðinga á fundinn, þá Svein Eberhardt Östmoen og Kristian Heggelund en að loknum aðalfundi héldu Svein, Kristian og Jón Örn, bóndi í Nýjabæ, erindi. Erindin voru tekin upp og verða textuð á næstu dögum. Upptökuna má finna hér: https://fb.watch/ddHfi0G73Z/
Erindin
Svein Eberhardt Östmoen er holdanautabóndi í Höystad og formaður Angus ræktunarfélagsins í Noregi. Í erindi sínu fjallaði Svein um það hvernig Norðmenn markaðssetja Angus kjöt, framtíðina í greininni og holdanautabúskapinn á sínu búi en hann hefur ræktað Angus gripi frá 1994. Á hans búi er burður í upphafi árs, sæðingar í apríl og á sumrin ganga kýrnar ásamt kálfunum á fjalli. Þegar gripirnir koma af fjalli eru kálfarnir teknir frá en gripirnir eru úti þar til í nóvember. Gripirnir eru vigtaðir að minnsta kosti fjórum sinnum á ævinni og miðað er við að kvígur hafi náð 60% af fullorðinsþyngd (c.a. 390 kg.) við sæðingu.
Kristian Heggelund ræktunarsérfræðingur hjá Tyr, ræktunar- og hagsmunasamtökum norskra nautakjötsframleiðenda, fjallaði um ræktunarstarf í Noregi í erindi sínu. Við val á nautum er mest áhersla lögð á fóðurnýtingu og gróffóðurát gripanna. Mikil áhersla er lögð á að vigta gripina og að gripir séu í réttum holdum við sæðingu og burð, hvorki of feitir né of léttir. Að loknum fundi var Kristian fenginn til að dæma og meta nautin sem eru að ljúka einangrun á einangrunarstöðinni.
Jón Örn Ólafsson bóndi í Nýjabæ hélt einnig erindi á fundinum, um ræktunarstarfið á búi sínu. Greindi hann frá reynslu sinni af sæðingarverkefni RML og niðurstöðum verkefnisins. Einnig sagði hann frá góðri reynslu sinni af uppeldi Angus gripa sem hann segir vera rólega og með góða vaxtargetu. Árangurinn verður þó ekki til að sjálfu sér, Jón hefur lagt mikið upp úr góðum aðbúnaði en í gripahúsunum eru velferðagólf, burðar- og meðhöndlunar aðstaða og rúmar stíur. Gripirnir eru vigtaðir, þeir fá hey af bestu gæðum, heimaræktað bygg, kjarnfóður á vaxtatímabilinu 5-9 mánaða og eru úti á góðri beit. Mikill áhugi, kappsemi, metnaður og vinna virðist skila sér því fyrr í mánuðinum sló hann met þegar gripur frá honum vigtaðist 502,2 kg. og fór í U+ flokk. Við óskum Jóni Erni að sjálfsögðu innilega til hamingju með árangurinn!
Það verður því spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun flokkunar og fallþyngdar á Angus gripum af nýja erfðaefninu. Fyrsta sæðið af nýja erfðaefninu kom til dreifingar um miðjan ágúst 2019 svo að kjöt af elstu gripunum af nýja erfðaefninu er nú að koma á markað. Í kjölfarið hefur verið óskað eftir breytingum á holdafyllingarflokkun gripanna, þannig að plús og mínus flokkunin verði innleidd í U og E flokk. Mikilvægt er að viðhalda metnaði bænda og hvetja þá til að gera enn betur, til þess þarf kjötmats flokkunarkerfið að bjóða upp á að gera betur og verðlauna bændur í samræmi við það.
Stjórn Nautís
Á aðalfundinum var stjórn Nautís var endurkjörin, en í henni sitja:
Gunnar Kristinn Eiríksson, formaður, fulltrúi Bssl
Jón Örn Ólafsson, fulltrúi LK
Sveinbjörn Eyjólfsson, fulltrúi NBÍ ehf
Kosnir varamenn:
Hulda Brynjólfsdóttir, fulltrúi Bssl
Herdís Magna Gunnarsdóttir, fulltrúi LK
Gunnar Þorgeirsson, fulltrúi NBÍ ehf
Framkvæmdastjóri er Sveinn Sigurmundsson.
Bústjóri er Baldur Indriði Sveinsson.