Fréttatilkynning – Nýtt og endurbætt ungkálfafóður frá MS
04.11.2009
Nú er komið á markað nýtt og endurbætt ungkálfafóður frá Mjólkursamsölunni. Helsta breytingin er að í stað valsaþurrkunar er blandan nú úðaþurrkuð sem hjálpar til við að varðveita upphafleg gæði mjólkurinnar auk þess sem blandan verður auðleystari. Þau meginmarkmið sem höfð voru að leiðarljósi var vöxtur, heilbrigði og matarlyst ungkálfa.
Hið nýja MS Ungkálfafóður er gert úr besta fáanlegu hráefni, fituskertri íslenskri mjólk. Með fituskerðingu hækkar hlutfall próteina sem er æskilegt til að mæta næringarþörfum kálfsins. Blandan er einnig vítamín- og steinefnabætt til að fyrirbyggja mögulega hörgulsjúkdóma. Helst má þar nefna E-vítamín, járn, joð og selen.
Þessu til viðbótar hefur blandan nú verið bætt með Fibosel®, virkum hreinsuðum gerjunarafurðum sem á náttúrulegan hátt örva almennt þol gagnvart kálfaskitu.
Rannsóknir sýna að máltækið „Lengi býr að fyrstu gerð“ er í fullu gildi því grunnurinn að góðri mjólkurkú er lagður strax á mjólkurskeiðinu.
Til að byggja upp mótstöðu fyrir sýkingum er mikilvægt að kálfurinn fái broddmjólk sem fyrst eftir burð og fyrstu þrjá til fjóra dagana. Síðan tekur MS Ungkálfafóður við og algengast er að nota duftið í 12-17% lausn og gefa 2-2,5 l tvisvar á dag. Ungkálfar skulu hafa frjálsan aðgang að vatni, ungkálfakögglum og heyi.
Fréttatilkynning frá MS