Beint í efni

Fréttatilkynning frá Búnaðarþingi 2008

07.03.2008

Búnaðarþing 2008 samþykkti eftirfarandi tilkynningu við lok þingstarfa í gær og henni hefur nú verið dreift til fjölmiðla:

"Á nýafstöðnu búnaðarþingi var mikil umræða um mataröryggi, stöðu og horfur í íslenskum landbúnaði. Bændasamtök Íslands eru þakklát fyrir þann stuðning sem bændur hafa fengið meðal þjóðarinnar og leggja áherslu á að áfram ríki sátt um atvinnuveginn og að starfsumhverfi íslensks landbúnaðar sé tryggt til langframa.

Búnaðarþing telur afar mikilvægt að fólk sem starfar við landbúnað búi við góðar félagslegar aðstæður, eðlilegar tekjur, öflugt menningarsamfélag og atvinnuöryggi sem gerir störf þess eftirsóknarverð.

Bændur eru tilbúnir að takast á við það verkefni að tryggja til framtíðar mataröryggi landsmanna og framleiða gæðamatvæli á sanngjörnu verði, í sátt við umhverfið. Bændur verða áfram vörslumenn lands og nýta á skynsamlegan hátt auðlindir þess, jörðina, gróðurinn og vatnið.

Öflugur landbúnaður er forsenda að blómlegum byggðum, varðveislu menningararfleifðar þjóðarinnar og ýmsum öðrum atvinnurekstri um land allt. Lifandi dreifbýli styrkir þjóðina alla.

Í þekkingu bænda á hagnýtingu landsins eru fólgin ómetanleg verðmæti sem gera þjóðinni kleift að lifa af landsins gæðum, þar sem sjálfbær búskapur er hafður að leiðarljósi. Það er best gert með ábyrgri meðferð ræktunarlands og skýrum eignarrétti bænda á landi. Bændur stefna að því að framleiðslumöguleikum hverrar jarðar verði skilað í betra horfi til næstu kynslóða.

Skýrt þarf að draga fram sérstöðu og uppruna íslenskra matvæla og búskaparhátta. Íslenskur landbúnaður byggir á grasrækt og ábyrgri landnýtingu. Áfram þarf að auka fjölbreytni búvöruframleiðslunnar og styrkja rekstrarforsendur allra greina landbúnaðarins. Búnaðarþing leggur áherslu á að íslenskur landbúnaður á mikla möguleika í heimi sem þarf að framfleyta vaxandi fólksfjölda. Tækifærin eru fjölmörg og þau ber að nýta."