Fréttatilkynning frá Áburðarverksmiðjunni
12.11.2007
Eftirfarandi fréttatilkynning hefur borist frá Áburðarverksmiðjunni:
„Vegna þeirrar umræðu sem hefur spunnist varðandi birtingu á niðurstöðum úr sýnatökum úr áburði hjá Landbúnaðarstofnun (LBS) og vegna stjórnsýslukæru á hendur stofnuninni, vill Áburðarverksmiðjan (ÁBV) koma eftirfarandi á framfæri:
ÁBV hefur alltaf farið eftir þeim reglum sem um áburðarframleiðslu og dreifingu gilda. Allur áburður sem seldur hefur verið frá ÁBV er vottaður af óháðri viðurkenndri skoðunarstofu, Inspectorate, (www.inspectorate.com) sem hefur ISO-vottun, vottun frá Evrópusambandinu, frá Norsk Veritas ofl. Mælingar og fjöldi sýna hjá eftirlitsaðilanum eru samkvæmt lögum og reglugerðum sem um þessi mál gilda.
Allar niðurstöður mælinganna eru tiltækar hjá ÁBV og öll sýnin eru innan leyfilegra vikmarka. Viðskiptavinum ÁBV er frjálst að kynna sér efni þeirra niðurstaðna.
ÁBV samþykkti birtingu efnarannsókna á vef LBS að því gefnu að farið væri eftir þeim lögum og reglum sem um áburðareftirlit gilda.
Strax í vor gerði ÁBV athugasemdir við verklag LBS við sýnatöku áburðar. Aðferðirnar voru ekki í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Af þeirri ástæðu getur ÁBV ekki samþykkt birtingu niðurstaðna mælinga þar sem ekki er staðið rétt að málum.
Það er mjög mikilvægt að stofnun eins og LBS sé hafin yfir gagnrýni um það hvort verið sé að fara eftir gildandi lögum og reglugerðum. Einkum ef ætlunin er að birta opinberlega niðurstöður mælinga.
Lög, reglur og staðlar um áburðareftirlit, krefjast mikillar nákvæmni og í lögunum er skýrt kveðið á um aðferðafræði eftirlitsins. Vikmörkin gera ráð fyrir að farið sé nákvæmlega eftir settum reglum og stöðlum. Að öðrum kosti eru niðurstöður ekki marktækar.
LBS tilkynnti ÁBV að niðurstöður yrðu birtar þrátt fyrir mótrök og var þá ÁBV nauðugur sá kostur að kæra ákvörðun LBS til Landbúnaðarráðuneytisins.
Ánægja viðskiptavina er það sem skiptir ÁBV mestu máli og það tókst mjög vel til á síðustu vertíð. Fyrir síðustu vertíð voru gerðar breytingar á áburðinum frá ÁBV sem tókust vel hvað varðar kornastærð og hörku.
ÁBV er mjög í mun að allur áburður fyrirtækisins standist kröfur neytenda um gæði og uppfylli jafnframt samevrópskar reglur um efnainnihald tilbúins áburðar.
Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar í síma 570-9800″.