Beint í efni

Fréttaflutningur um slæma meðferð sauðfjár

18.12.2009

Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins kl. 19 fimmtudaginn 17. desember var fjallað um slæma meðferð sauðfjár á Stórhóli í Álftafirði og dómssátt með sektargreiðslu þar að lútandi á milli  ábúanda Stórhóls og lögreglustjórans á Eskifirði. 

Bændasamtök Íslands telja að í viðtali með fréttinni hafi oddviti Djúpavogshrepps vegið ómaklega að samtökunum sem hafa um árabil lagt á ráðin og veitt leiðbeiningar um viðunandi aðbúnað og fóðrun sauðfjár á Stórhóli ásamt Búnaðarsambandi Austurlands o.fl. aðilum.

Bændasamtök Ísland hafa hvorki laglega heimild til að halda uppi eftirliti né dæma í slíkum málum enda í verkahring Matvælastofnunar að leita úrlausna og dómstóla að dæma sé um lögbrot að ræða. Augljóst er að endurskoða þarf alla þá löggjöf sem varðar búfjár-og dýravelferð í landinu og herða eftirlit þannig að unnt sé að koma í veg fyrir að tiltölulega fáir búfjáreigendur í landinu geti skaðað ímynd landbúnaðarins og eru Bændasamtök Íslands reiðubúin að miðla af þekkingu og reynslu í þeim efnum, bæði dýrum og mönnum til hagsbóta.

/Bændasamtök Íslands