Frekari sameining norrænu ræktunarfélaganna?
12.02.2010
Á dögunum var greint frá sameiningu ræktunarfélaganna FABA og Viking Genetics. Í síðustu viku var svo greint frá því að Geno, nautgriparæktarfélag Noregs væri að íhuga sameiningu við Viking Genetics. Með því yrði til einn öflugasti félagsskapur á þessu sviði í heiminum, en félagsmenn í Geno og Viking eru samtals 43.000 talsins. Endanleg ákvörðun hefur þó alls ekki verið tekin, fyrst þarf að ræða hugmyndina í öllum deildum Geno sem eru alls 260.
Tilgangurinn með sameiningunni er að skjóta styrkari stoðum undir ræktunarstarfið í Noregi, efla útflutning á erfðaefni, ásamt því að auka samkeppnishæfni rauðu kúnna gagnvart hinum svartskjöldóttu.
Athyglisvert verður að fylgjast með framgangi málsins en ýtarlega var greint frá því á vefsíðu Nationen í Noregi.