
Framtíðarkýrin með 26 þúsund lítra að jafnaði?
25.09.2017
Í tímaritinu Hoards Dairyman fyrr á þessu ári var áhugaverð grein um mjólkurkýr framtíðarinnar þar sem vísinda- og fræðafólk frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu var fengið til þess að gefa álit sitt á efninu. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar en þar er t.d. bent á að eftir 50 ár megi búast við því að kýrnar muni framleiða árlega 17-35 tonn og að meðalnytin verði þá komin í 26 tonn! Þess ber reyndar að geta að hér er verið að miða við erlent kúakyn, sem í dag er líklega að framleiða að jafnaði um 30-35% af þessari áætluðu framleiðslugetu framtíðarinnar. Ef sömu rök myndu gilda um okkar íslensku mjólkurkýr, má því framreikna þær upp í þetta 19-20 tonna mjólkurframleiðslu á ári!
Auðvitað er hér fyrst og fremst verið að giska á þróun til framtíðar og byggt þar á mögulegum tækniframförum við erfðamat svo dæmi sé tekið. Ef horft er frá nýjungum í ræktunarmöguleikum lítur dæmið svolítið öðruvísi út og t.d. ef litið er til meðalafurða fyrir 50 árum og afurðaaukningin framreiknuð frá deginum í dag og 50 ár fram í tímann reiknast skýrsluhöfundum til að meðalafurðirnar verði komnar í 17 tonn af jafnaði. Segja má að þetta sé í raun áætlað lágmark.
Á það er bent, sem rökstuðning fyrir þessari spá um kýr framtíðarinnar, að nú þegar séu til kýr sem mjólka þetta 25-30 tonn á ári og því sé alls ekki ólíklegt að þróunin fari einmitt í þessa átt og skili mun afkastameiri kúm en nú eru í notkun/SS.