Beint í efni

Framlög til landbúnaðar hækka ekki

07.10.2009

Af fréttum Stöðvar 2 í vikunni mátti skilja að framlög til landbúnaðar væri hærri í fjárlögum fyrir árið 2010, en þau eru á yfirstandandi ári. Svo er að sjálfsögðu ekki. Flestum er í fersku minni breytingar sem gerðar voru á búvörusamningum í vor, þar sem framlög hins opinbera til kúabænda skv. búvörusamningum frá 2004 voru skert um ca. 700 milljónir kr til ársins 2011. Þá hefur einnig verið tilkynnt um mikla skerðingu skv. Búnaðarlagasamningi, en þeir fjármunir renna til ráðgjafaþjónustunnar, BÍ og búnaðarsambandanna.

Það sem skilja má sem útgjaldaaukningu Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytis er sk. Fóðursjóður, en með vísan til tollalaga er lagður á 55% fóðurtollur á allan innflutning á fóðri til landsins og rennur andvirði tollsins í fóðursjóð, sbr. 31. gr. búvörulaga. Tollur þessi er hins vegar felldur niður um leið og innflutningurinn á sér stað, enda hafi innflutningsfyrirtækin sótt um niðurfellingu á tollinum. Eina undantekningin frá þessu er innflutningur á fullunnum fóðurblöndum frá „þriðju löndum“ þ.e. löndum utan ESB, en þar er lagður á tollur sem samsvarar til 3,90 kr./kg. Á móti kemur að enginn innflutningur á sér stað frá þessum þriðju löndum.

 

Við fjárlagagerð fyrir árið 2009 var reiknað með að lögunum yrði breytt þannig að innheimta fóðurtolla yrði afnumin, þá var áætlað að í fóðursjóð rynnu 115 m.kr. Þar sem ekki varð af þessu er áætlunin fyrir 2010 1.400 m.kr., en eftir sem áður verður sú upphæð felld niður við tollafgreiðslu, er greidd af fóðurinnflytjendum og endurgreidd jafnharðan. Sú hækkun sem þetta sýnir í fjárlagafrumvarpi 2010 er brúttó tala og hefur engin áhrif á raunveruleg útgjöld á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.