Beint í efni

Framlenging á undanþáguákvæði um geymslurými fyrir búfjáráburð

08.04.2010

Á aðalfundi LK 2009 var samþykkt ályktun þar sem skorað var á umhverfisráðherra „að framlengja um 5 ár bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 804/1999, sem mælir fyrir um frestun á gildistöku ákvæðis 6. greinar sömu reglugerðar varðandi 6 mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð. Telur fundurinn nær útilokað fyrir bændur að stofna til byggingarframkvæmda á meðan það efnahags- og óvissuástand varir sem nú er“. Síðan þá hafa einnig verið kynntir til sögunnar möguleikar á metangasvinnslu úr kúamykju, eins og ýtarlega var fjallað um á Fræðaþingi landbúnaðarins í febrúar sl. Þeir möguleikar geta haft veruleg áhrif á þörf fyrir geymslurými heima á búunum.  

Á fundi forsvarsmanna LK með ráðherra umhverfismála í mars sl. var þessari ályktun fylgt eftir. Hefur ráðuneytið nú gert breytingu á framangreindri reglugerð, þar sem tímafrestur varðandi hauggeymslur fyrir kúabú er framlengdur til 1. júlí 2015.