Framleiðsla og sala mjólkur 2009
20.01.2010
Á nýliðnu ári var heildarframleiðsla á mjólk hér á landi tæplega 125,6 milljónir lítra, sem er 0,38% samdráttur frá fyrra ári, eða rúmlega 400 þús. ltr minna en 2008. Sala á próteingrunni var 117,7 milljónir lítra, sem tæplega hálfs prósents aukning frá 2008, eða rúm hálf milljón lítra. Sala á fitugrunni var 115,6 milljónir lítra sem er tæplega 3% aukning frá fyrra ári, sem nemur tæpum 3,3 milljónum lítra.
Það er mjög ánægjulegt að sjá söluaukningu í magni, þó hún sé væntanlega ekki sú sama í verðmætum talið. Greinileg tilfærsla hefur orðið í neyslu, úr dýrari vöruflokkum yfir í ódýrari. Bilið á milli prótein- og fituneyslu styttist enn, er nú komið niður í 2 milljónir lítra, en var þegar mest var 12,2 milljónir lítra árið 2005. Þá var sala á próteingrunni 112,2 milljónir lítra en 100,0 milljónir lítra á fitugrunni.