Beint í efni

Framleiðsla mjólkur minnkaði verulega í október

06.11.2003

Samkvæmt bráðabirgðayfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði um framleiðslu mjólkur í október, þá minnkaði framleiðslan verulega eða um 7,6% miðað við október í fyrra. Skýringuna má vafalítið m.a. finna í snöggum veðurfarsbreytingum í byrjun mánaðarins, sem orsakaði víða nytlækkun hjá kúm.

Þar sem framleiðslan í september sl. var nokkuð meiri en í september 2002 er framleiðslan kúabænda það sem af er þessu verðlagsári ekki nema 2,3% minni en fyrra verðlagsár. Þó er ljóst að þrátt fyrir að greiðslumark kúabænda þetta verðlagsár sé 1 milljón lítrum minna en fyrra verðlagsár, er ljóst að framleiðslan má ekki minnka jafn mikið næstu mánuði og reyndin varð í október.

 

Rétt er að geta þess að þrátt fyrir að framleiðslan í október hafi dregist saman miðað við fyrra ár, hefur það lítil eða engin áhrif á sölu mjólkur og mjólkurvara til skamms tíma. Ekki liggja á þessari stundu fyrir upplýsingar um sölu mjólkur og mjólkurvara í október.