Framleiðsla mjólkur í júlí minni en í fyrra
15.08.2005
Samkvæmt uppgjöri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði var mjólkurframleiðslan í júlí 9,0 milljónir lítra en í júlí í fyrra var hún 9,6 milljónir lítra. Miðað við óskir mjólkuriðnaðarins um kaup á umframmjólk á þessu verðlagsári má því telja harla ólíklegt að kúabændur nái að framleiða alla þá mjólk sem óskað hefur verið eftir að kaupa þar sem framleiðslan undanfarin ár gefur ekki tilefni til þess að ætla að aukning verði í ágúst miðað við framleiðsluna í júní og júlí í ár. Samtals hafa nú verið framleiddir
102,5 milljónir lítrar mjólkur og þyrfti framleiðslan í ágúst því að skila amk. 10 milljónum lítrum mjólkur ef framleiða ætti alla þá mjólk sem iðnaðurinn hefur kallað eftir, sem eru 112,5 milljónir lítra.
Tekið skal fram að þrátt fyrir það að kúabændur muni ekki ná að framleiða alla þá mjólk sem óskað hefur verið eftir að kaupa, þá mun það ekki hafa áhrif á framboð mjólkurvara til íslenskra neytenda.
Framleiðsla mjólkur síðustu ár í júní, júlí og ágúst hefur verið eftirfarandi (í milljónum lítra)*:
2002 | 2003 | 2004 | 2005 | |
Júní | 9,4 | 9,6 | 10,1 | 9,9 |
Júlí | 9,6 | 8,9 | 9,6 | 9,0 |
Ágúst | 8,7 | 7,9 | 8,9 | þyrfti að vera 10 millj. til að uppfylla óskir afurðastöðvanna |
Samtals | 27,7 | 26,4 | 28,6 | amk. 28,9 |
* Heimild: SAM (www.sam.is)