Beint í efni

Framleiðsla á lífrænni mjólk í Svíþjóð slær met

24.08.2011

Fyrstu sex mánuði þessa árs hefur framleiðsla á lífrænni mjólk í Svíþjóð tekið stórt stökk upp á við og hefur innvigtunin verið 28-32% meiri í hverjum mánuði en árið 2010. Það ár nam hlutfall lífrænnar mjólkur þar í landi 9,1% en það sem af er þessu ári er þetta hlutfall nú komið í 11,5% sýna tölur Svensk Mjölk (Samtök sænskra afurðastöðva).

 

Skýringin á þessari aukningu nú felast fyrst og fremst í innkomu Vadsbo Mjölk, sem er eitt af stærstu lífrænu kúabúunum í Evrópu með nærri 1.000 mjólkurkýr! Vadsbo Mjölk er samstarfsfyrirtæki 9 kúabænda sem hafa slegið saman sinni framleiðslu í eitt stórt kúabú. Fjósið rúmar 1.250 mjólkurkýr en verður ekki komið í fulla notkun fyrr en árið 2012 og þá er ráðgert að framleiðslan muni nema 28 tonnum af lífrænni mjólk á dag. Alls þarf 20 starfsmenn á þessu búi enda töluvert mál að beita bústofninum en samkvæmt lífrænu reglunum ber að beita kúnum amk. 3 mánuði á ári og á þeim tíma skal gróffóður af beit nema helmingi fóðursins. Nánar má fræðast um þetta stóra lífræna kúabú á heima síðu þess: www.vadsbomjolk.se /SS.