Beint í efni

Framleiðsla á “Lean Creme” hjá MS Akureyri

25.06.2007

Á vorfundi Tæknifélags mjólkuriðnaðarins sem haldinn var nýlega, héldu Oddgeir Sigurjónsson, framleiðslustjóri hjá MS Akureyri og Auðunn Hermannsson, vöruþróunarstjóri MS erindi um mysusíunarbúnað og framleiðslu á mysupróteinþykkni, sk. „Lean Creme“ sem hófst fyrir stuttu hjá MS Akureyri, en mjólkursamlagið þar er stærsta ostabú á landinu og falla um 20 milljónir lítra af mysu til vegna ostaframleiðslunnar þar árlega.

Talsverður hluti þess magns hefur farið í svínafóður og lítilræði er notað til framleiðslu mysuosta. Um 10 milljónir lítra af mysu hafa farið í svelginn árlega. Þar fer talsverður hluti af próteini forgörðum, en í ostagerð nýtast um 3/4 próteinsins í ostinn en 1/4 fer með mysunni. Ný tækni gerir kleyft að sía mysupróteinið frá mysunni, en það er hágæðaprótein sem nýtist best af öllum próteinum til vöðvauppbyggingar.

Mjólkursamlag MS á Akureyri er þessa dagana að taka í notkun síunar og meðhöndlunarbúnað  fyrir mysu. Vinnsluferlið er þrískipt: fyrsta lagi síun á mysuproteinum úr ostamysu í próteinþykkni. Í öðru lagi meðhöndlun próteinþykknisins í svokallað  “LeanCreme”. Í þriðja lagi þykkingu á þeirri restafurð (permaet) ásamt skyrmysu. Er þar með farið að hreinsa alla þá mysu sem til fellur hjá fyrirtækinu. Hefði þessi leið ekki verið farin, hefði þurft að byggja hreinsistöð til að hreinsa frárennslið frá fyrirtækinu með tilheyrandi kostnaði.

Möguleikar á nýtingu eru verulegir, próteinið sem til fellur nemur því magni sem kemur úr 3 milljónum lítra af undanrennu, þannig að nýting hráefnisins batnar verulega, þá má nýta „Leancreme“ í fiturýrar vörur, t.d. magra osta til að auka bragðgæði þeirra, en síðast en ekki síst er hér um afar öflugt tæki til vöruþróunar að ræða, og kom það fram á fundinum að viðlíka tækifæri til vöruþróunar hefðu ekki komið fram um árabil. Þá má þess geta að síunabúnaður þessi er einungis sá fimmti sinnar tegundar sem settur er upp í heiminum.