Beint í efni

Framleiða þriðjung allrar mjólkur á heimsmarkaðinum!

26.09.2011

Það kann að hljóma ótrúlega en tilfellið er að mjólkurframleiðslan í Nýja-Sjálandi stendur fyrir þriðjungi allra viðskipta í heiminum með mjólkurafurðir! Nú hafa kúabændur landsins upplifað 10 ár í röð með stöðuga aukningu í sölu og er það all merkilegt í ljósi efnahagsástandsins í heiminum. Árið 2000 var landsframleiðsla þeirra rétt rúmlega 13 milljarðar lítra en á síðasta ári nam framleiðslan rúmlega 17 milljörðum lítra sem er aukning um 29% á 10 árum!

 

Heildarframleiðsla mjólkur í heiminum árið 2010 er talin hafa numið 700 milljörðum lítra og fer lang mest til sölu á heimamörkuðum og einungis 6-7% fer í sölu erlendis að jafnaði. Talið er að magn mjólkurvara á heimsmarkaði sé um 45 milljarðar lítra, aðallega í formi undanrennudufts, mjólkurdufts, smjörs og osta/SS.