Beint í efni

Framleiða osta í hellum Transylvaníu

04.09.2014

Í fyrra tók stjórn hins hollenska FrieslandCampina ákvörðun um að loka afurðastöð sinni í Transylvaníu í Rúmeníu. Afurðastöðin sem var sérhæfð í framleiðslu á sérstökum ostum, sk. Nasal ostum, sem voru svo látnir þroskast í gömlum hellum í Taga héraðinu í Rúmeníu. Ostar þessir þóttu mikið hnossgæti og munaðarvara en eftir hrunið dró úr kaupgetu almennings í Rúmeníu og datt salan á ostunum verulega niður. Eftir nokkurra ára baráttu var svo ákveðið að loka framleiðslunni.

 

Síðan síðasti osturinn var seldur, um mitt síðasta ár, hafa ótal aðilar skorað á FrieslandCampina að endurskoða ákvörðun sína. Það var þó ekki fyrr en heimamenn settu á fót sér félag sem heitir einfaldlega „Cheese Factory Transylvania“ að hinir hollensku eigendur tóku við sér og sömdu við heimamenn um að hefja framleiðslu ostanna á ný.

 

Nasal ostar, sem reyndar eru stundum kallaðir Camemberostar frá Transylvaníu, eru mjúkir mygluostar og eru þeir látnir þroskast í hellunum í 21 dag áður en þeim er pakkað og komið til neytenda/SS.