Beint í efni

Framleiða enn síur fyrir mjólkurbrúsa!

12.02.2011

Plastiðjan Bjarg – Iðjulundur, er vinnustaður sem hefur það að markmiði að veita atvinnu einstaklingum með skert starfsþrek. Bæði er um að ræða starfsþjálfun og endurhæfingu til skemmri tíma og einnig varanlega vinnu til lengri tíma. Flestir kúabændur þekkja vörurnar frá PBI enda er fyrirtækið leiðandi í mjólkursíusölu. Naut.is ákvað að forvitnast um reksturinn og fólkið sem stendur vaktina m.a. við framleiðslu á þessari mikilvægu rekstrarvöru við mjólkurframleiðsluna.
 
Plastiðjan Bjarg – Iðjulundur (PBI) skiptist í fimm framleiðsludeildir: Plastdeild, sem er að stærstum hluta byggð á framleiðslu á raflagnaefni. Saumadeild, þar sem

eru saumaðar mjólkursíur, sigtisbotnar, vettlingar og rúmföt. Kertadeild, framleiðsla útikerta og handdýfðra gæðakerta. Skiltadeild, gerð hurðamerkinga og leiðaskilta. Búfjármerkjadeild þar sem er framleiðsla og dreifing búfjármerkja.
 
Fjölmargir koma að framleiðslu vara fyrir landbúnaðinn
Ólöf E. Leifsdóttir iðjuþjálfi er forstöðumaður PBI: „Það vinna hjá okkur um þessar mundir um 70 einstaklingar, bæði fastir starfsmenn og einstaklingar með skerta starfsgetu. Þar sem við erum með afar fjölbreytta framleiðslu hjá okkur getum við fundið verðug og hentug verkefni fyrir alla, sem henta mismunandi vinnugetu“, sagði Ólöf í viðtali við naut.is. Að sögn Ólafar starfa sjö til átta starfsmenn við síu- og klútasaum í einu og þrír til fjórir við prentun á eyrnamerkjum en alls koma 18-20 manns að framleiðslu PBI sem tengist landbúnaði.
 
Allar gerðir af síum
Alla tíð hefur verið lögð mikil áhersla á að framleiða vörur til notkunar í landbúnaði. Má þar nefna mjólkursíur, sigtisbotna, þvottaklúta, vinnuvettlinga og fjármerki og hefur hönnun og vöruþróun ávallt verið í góðri samvinnu við bændur og ráðgjafa þeirra. „Nú eru fjórar tegundir  af mjólkursíum saumaðar hér hjá okkur, bæði stuttar og langar fyrir hefðbundin mjaltakerfi og svo framleiðum við síur fyrir báðar gerðirnar af mjaltaþjónunum sem hér á landi eru. Þá er enn hægt að fá gömlu góðu sigtisbotnana“.

 

Unnið við síugerð

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðspurð um það hvort sigtisbotnar seljist vel þessi árin sagði Ólöf: „Það er vissulega ekki mikil sala í sigtisbotnunum en þeir fara þó út og eru helst notaðir til þess að sía broddmjólk. Margir eru hissa þegar þeir heyra að sigtisbotnar skuli enn vera framleiddir en flestir söluaðilar okkar eru með þessa botna“. Auk síanna eru eins og að framan greinir einnig saumaðir júgurþvottaklútar sem eru seldir 10 saman í pakka.
 
Keyptu prentara fyrir gripamerkin
Í áraraðir hafa verið framleidd lambamerki hjá PBI, sk. Bjargsmerki og frá árinu 2005 hefur verið samstarf við merkjaframleiðanda í Noregi, OS-ID um dreifingu á fjármerkjum. Vorið 2010 kom leiserprentari til að prenta á merkin til landsins og var í fyrstu eingöngu prentað á lambamerki en frá og með síðastliðnu hausti hefur verið prentað á önnur búfjármerki, m.a. nautgripamerki.  „Merkin eru pöntuð á sama hátt og áður á bufe.is en í staðinn fyrir að pantanir berist á rafrænan hátt til Noregs einu sinni í viku fara þær nú hingað til okkar á Akureyri. Merkin eru síðan send til bænda í pósti þannig að þau berast til bænda innan 7-12 daga“, sagði Ólöf og bætti við: „Við bjóðum einnig upp á kaup á óáprentuðum merkjum og innan skamms tíma geta bændur einnig pantað tvöfalt merki á bufe.is, þar sem önnur blaðkan verður auð og þá hægt að skrifa á hana t.d. gripanafnið“.
 
Örmerki eru framtíðin
Að sögn Ólafar hefur verið nokkuð spurt um örmerki til notkunar í nautgripi enda allmargir sauðfjárbændur farnir að nota slík merki. Þróun slíkra merkja og samstilling búnaðar fyrir nautgripi er hinsvegar ekki nógu langt komin. „PBI er í afar nánu samstarfi við OS-ID merkjaframleiðandann í Noregi en OS-ID er í fremstu röð merkjaframleiðenda varðandi þróun örmerkja. Þróunin hlýtur að verða sú að örmerki sem sett er á hefðbundið blöðkumerki í eyra, nýtist við fóðrun, mjaltir og annan búnað. Merkið sem slíkt er til í dag en það vantar bara samstillingar á búnaði“, sagði Ólöf að lokum í viðtali við naut.is.