Framkvæmdir að hefjast við nýja Nautastöð BÍ
23.07.2007
Á miðvikudaginn var, 18. júlí sl. tók Bjarni Arason, fyrrverandi nautgriparæktarráðunautur Borgfirðinga og þar áður Eyfirðinga, fyrstu skóflustungu að nýrri Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Mun hin nýja stöð standa í túnfætinum á Hesti í Borgarfirði. Eftir að skóflustungan hafði verið tekin, var gestum boðið að kynnast væntanlegum byggingum og rekstri í nýrri Nautastöð.
Byggðar verða tvær byggingar á Hesti. Annars vegar er það Nautastöðin sjálf, fyrir 26 naut í sæðistöku, 50-60 kálfa í uppeldi og tilheyrandi rannsóknaaðstöðu, skrifstofu og geymslu fyrir sæðisbirgðir. Sú bygging verður um 1400 fermetrar og verða sæðistökunautin í stíum en kálfarnir á legubásum. Hins vegar er það einangrunarstöð, tæpir 100 fermetrar, þar sem tekið verður á móti kálfunum og þeir hafðir í sóttkví fyrstu vikurnar, í hálmstíum. Í þeirri byggingu er einnig gert ráð fyrir að geyma um þriðjung sæðisbirgða Nautastöðvarinnar. Þessar tvær byggingar standa í um 540 metra fjarlægð frá fjárhúsunum Hestbúsins, sem er talið fullnægjandi m.t.t. sóttvarna og dýraheilbrigðis.
Talsvert mun sparast í mannahaldi þegar Nautastöðin er sameinuð á einum stað, í stað stöðvanna á Hvanneyri og í Þorleifskoti við Selfoss. Verða þær boðnar til sölu fljótlega. Áætlaður kostnaður við byggingu nýrrar Nautastöðvar er 130-140 milljónir króna.
Á myndunum hér að neðan má sjá Bjarna taka skóflustunguna, meðan Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands fylgist með.