Frakkar framleiða tvöfalt á við Norðurlöndin
31.07.2012
Þrátt fyrir að síðasta ár hafi verið afar gott framleiðsluár á Norðurlöndunum og heildarframleiðslan hafi endað í 11,3 milljörðum lítra þá er það hjóm eitt við hlið franskrar mjólkurframleiðslu. Franskir bændur einir framleiða nefninlega árlega 25 milljarða lítra mjólkur!
Þessi mjólk er innvegin hjá 500 móttökuaðilum mjólkur eða að jafnaði um 50 milljónir lítra á hverja móttökustöð. Þó gefur þessi tala ekki rétta mynd þar sem að fram kemur í tölum frá DIN (Dairy Industry Newsletter) að 32 afurðastöðvar taki við 60% framleiddrar mjólkurinnar eða að jafnaði um 469 milljónum lítra!
Mjólkin fer svo til vinnslu hjá ótrúlegum fjölda aðila en alls eru skráðir 1.250 framleiðsluaðilar mjólkurafurða í Frakklandi. Þar af eru reyndar um fjórðungur sem er með afar lítið magn eða minna en 10 þúsund lítra árlega. Alls starfa 58 þúsund manns við úrvinnslu mjólkurafurða í landinu og gerir það að jafnaði að á bak við hverja 430 þúsund lítra vinni einn aðili við úrvinnslu mjólkurinnar.
Þetta gríðarlega magn mjólkur nýtist svo til framleiðslu á:
3,6 milljörðum kg ferskmjólkur
3,3 milljörðum kg G-vara
2,3 milljörðum kg af jógúrti
1,8 milljörðum kg af ostum
0,4 milljörðum kg af rjóma
0,36 milljörðum kg af smjöri
1 milljarði kg af dufti af ýmsum gerðum.
Þeir sem þekkja til mjólkuriðnaðar og nýtingar mjólkur í ýmsar mjólkurvörur eru væntanlega fljótir að reikna út að þessar tölur hér að ofan passa hálf illa við framleiðslumagnið sem er miklu meira en hráefnið ”mjólk” sem inn fer. Mismunurinn felst í bætiefnum og aðkeyptu hráefni frá öðrum löndum/SS.