Fræðsluritið Burður og burðarhjálp komið út!
28.02.2015
Landssamband kúabænda hefur nú gefið út fræðsluritið Burður og burðarhjálp, en þetta fræðslurit er gert með það í huga að gefa notandanum góð ráð þegar kemur að burði og hugsanlegri burðarhjálp. Fræðslurit þetta, sem upprunalega var skrifað á sænsku af þeim Karin Granström og Anita Jonasson, var skrifað af höfundunum fyrir sænska kúabændur með holdakýr. Framsetning efnisins var afar skýr og greinargóð og með góðum leiðbeiningum og var það mat LK efnið myndi henta vel fyrir íslenska kúabændur, hvort sem þeir væru með mjólkur- eða holdakýr. Það var því leitast eftir því við höfunda að fá heimild til þýðingar á verkinu og var það auðsótt, en um þýðingu og staðfærslu sá Snorri Sigurðsson en Grétar Hrafn Harðarson sá um faglegan yfirlestur.
![]() |
Í fræðsluritinu eru tekin mörg gagnleg dæmi um vandamál sem koma upp og hvernig megi leysa þau |
Það er von Landssambands kúabænda að fræðslurit þetta komi að góðum notum í dagsins önn, stuðli að bættum hag bænda ásamt því að auka velferð búpenings. Þetta fræðslurit, sem er alls 28 blaðsíður í A4 broti, verður sent til allra kúabænda landsins í mars og sjá mjólkurbílar um að koma ritinu til allra kúabænda í mjólkurframleiðslu en þeir sem einungis eru í kjötframleiðslu fá fræðsluritið með pósti. Ef svo óheppilega vill til að ritið hafi ekki borist á eitthvert kúabú þegar mánuðurinn er úti, biðjum við viðkomandi að senda okkur tölvupóst (skrifstofa@naut.is) eða hafa samband við skrifstofu LK: 450-1390/SS.