Beint í efni

Fræðslufundur MAST um nýja matvælalöggjöf

28.01.2010

Sem kunnugt er, samþykkti Alþingi nýja matvælalöggjöf stuttu fyrir jól. Eru það lög nr. 143/2009. Í fyrradag hélt Matvælastofnun kynningarfund um þessa nýju löggjöf. Framsögumenn á fundinum voru Viktor S. Pálsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs og Jón Gíslason, forstjóri stofnunarinnar. Upptaka frá fundinum er aðgengileg hér.

„Með samþykki matvælafrumvarpsins á Alþingi 18. desember s.l. verður matvælalöggjöf ESB innleidd í áföngum og munu breytingar á lögum um matvæli, fóður og sjávarafurðir taka gildi 1. mars n.k. Með breytingunum er gerð aukin krafa um góða framleiðsluhætti, ábyrgð matvælafyrirtækja á eigin framleiðslu, öflugt innra eftirlit og rekjanleika, sem stuðlar að matvælaöryggi og neytendavernd. Samhliða taka breytingar á fyrirkomulagi matvælaeftirlits gildi og mun Matvælastofnun (MAST) taka yfir eftirlit með eggjavinnslum, mjólkurstöðvum og kjötvinnslum (nema í smásölu, s.s. kjötvinnslur í stórmörkuðum) sem áður var i höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
 

Árið 2011 falla eftirlitssamningar skoðunarstofa við vinnslu- og starfsleyfishafa í sjávarútvegi úr gildi og færist eftirlitið yfir til MAST eða faggilts eftirlitsaðila í umboði MAST. Loks taka breytingar á löggjöf um búfjárafurðir gildi 1. nóvember 2011 og frá sama tíma verður umdæmisskrifstofum MAST fækkað úr 14 í 6, með einum héraðsdýralækni starfandi í opinberu eftirliti í hverju umdæmi, ásamt eftirlitsdýralæknum og öðrum eftirlitsmönnum“.

 

Glærur frá erindi Viktors eru hér og erindi Jóns er hér.