Beint í efni

Fræðaþing landbúnaðarins hefst í dag

10.03.2011

Fræðaþing landbúnaðarins 2011 hefst í dag og stendur til morgundagsins. Þingið verður að vanda haldið á Hótel Sögu. Þingið er samvinnuverkefni 9 stofnana sem tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Að þessu sinni verður eldgosið í Eyjafjallajökli m.a. í brennidepli en í málstofu um það verður m.a. rætt um áhrif þess á samfélag, búskap, dýralíf og gróður. Viðamikil dagskrá verður um hrossarækt og hestamennsku og horft verður til framtíðar varðandi skógrækt hér á landi. Hefðbundnar málstofur um búfjárrækt, jarðrækt, nýtingu afurða, aðbúnað og eftirlit verða á sínum stað. Þá verða vatnalífi og fiskrækt gerð skil í víðu samhengi.

 
Ástæða er til þess að benda kúabændum og öðru áhugafólki um nautgriparækt á málstofurnar sem haldnar verða á morgun,

föstudaginn 11. mars,  en þá verður fjallað um  ýmis málefni greinarinnar s.s. niðurstöður búreikninga, áhrif kynbóta á framleiðni á kúabúum, NorFor fóðurmatskerfið, áhrif fóðrunarskipulags á fóðurnýtingu hjá mjólkurkúm, dreifingartíma kúamykju og umferðarstjórnun kúa í mjaltaþjónafjósum.

Nánar má lesa um Fræðaþingið hér: http://www.bondi.is/Pages/1403