Frá hrossaræktarráðunauti Bændasamtaka Íslands
11.05.2010
Sýningar kynbótahrossa eru í gangi þessa dagana víða um land. Afföll hrossa af sýningunum eru talsverð vegna hrossapestarinnar sem hrjáir hrossastofninn. Ekki þótti fært að seinka sýningunum með því hefði verið brotið á rétti þeirra sem ekki hafa fengið veikina í sín hross og voru tilbúnir til leiks á áður auglýstum sýningartímum.
Til að taka af allan vafa um hvernig þær auka kynbótasýningar sem hugmyndir hafa verið viðraðar um, eru hugsaðar, er rétt að eftirfarandi sé haft í huga.
Aukasýningarnar eru eingöngu ætlaðar fyrir þau hross sem ekki hafa mætt á aðrar sýningar vorsins. Á þetta jafnt við um hross sem skráð voru á þær sýningar eða ekki. Ekki verður krafist neinna læknisvottorða, öll hross sem af einhverjum ástæðum hafa ekki komið til dóms eru velkomin á þessar sýningar.
Þessi fyrirvari á rétti til þátttöku er einvörðungu settur vegna tímaleysis en ómögulegt er að dæma á þeim dögum sem um er að ræða nema fáein hundruð hrossa.
Þeir dagar sem um gæti verið að ræða fyrir þessar sýningar, ef af verður, eru 14 – 16 júní, nær landsmóti er ekki fært að fara vegna sýningarskrár og útreiknings á kynbótamati sem grundvallar verðlaun fyrir afkvæmahesta.
Þeir staðir sem ég hef í huga fyrir þessar sýningar, á þessari stundu, eru Víðidalur í Reykjavík og Sauðárkrókur. Þegar nær dregur verður þó metið hvort víðtækara sýningarhald þarf að koma til.
Ég vænti þess að allir muni leggjast á eitt svo þessi sýningarmáti megi ganga upp að þessu sinni og með þessu móti verði fleirum gert fært að spreyta sig við landsmótslágmörkin.
Enn og aftur skora ég á knapa og umráðamenn að koma ekki með veik hross til dóms, heldur sjá til hvort ekki rætist úr með hækkandi sól.
Guðlaugur V. Antonsson, hrossaræktarráðunautur BÍ.