
Frá hrossaræktarráðunaut
13.06.2012
Ágætu hrossaræktendur
Nú líður senn að landsmóti í Reykjavík. Vegna mikillar aðsóknar að þeim kynbótasýningum sem verið hafa undanfarið er tíminn orðinn naumur svo allir endar verði hnýttir tímanlega fyrir mótið. Ekki síst eru það upplýsingar fyrir sýningarskrá mótsins sem standa uppá undirritaðan.
Einstaklingssýningar á landsmóti
Málum hefur verið þannig fyrirkomið í vor að hross sem náð hafa landsmótslágmörkum í einstaklingssýningu mótsins hafa sjálfvirkt færst í sérstaka landsmótssýningarskrá í WorldFeng. Á stiku vinstra megin í WF undir liðnum „Sýningar“ er liður sem ber nafnið „Sýningarskrá fyrir landsmót“ undir þeim lið er umrædd sýningarskrá. Mikilvægt er að eigendur/umráðamenn þeirra hrossa sem í skránni eru yfirfari allar upplýsingar ef eitthvað mætti betur fara. Öll hross sem í skránni eru munu verða í sýningarskrá landsmóts, hinsvegar væri afar gott ef mér væru sendar upplýsingar um þau hross sem nú þegar er fyrirsjáanlegt að munu ekki mæta í kynbótageira mótsins. Þetta eru afar mikilvægar upplýsingar vegna tímaskipulags mótsins.
Afkvæmasýndir stóðhestar á landsmóti
Eftir yfirlitssýningu á Mið-Fossum næstkomandi fimmtudag verður hafist handa við að reikna nýtt kynbótamat. Að þeim útreikningi loknum (vonandi á laugardag/sunnudag) verður nýtt kynbótamat fært í WorldFeng og þá verður ljóst hvaða stóðhestar eiga rétt á þátttöku á landsmóti með afkvæmahópa. Sem fyrst eftir að sá listi liggur fyrir þarf ég að fá upplýsingar frá umráðamönnum hestanna um hvaða afkvæmi muni fylgja hverjum grip til sýningar (6 afkvæmi + tvö til vara með fyrstuverðlauna hestum og 12 afkvæmi + 2 til vara heiðursverðlaunahestum). Þessar upplýsingar munu að venju birtast í sýningarskránni með upplýsingum um hestana. Athuga þarf að öll hrossin sem fylgja afkvæmahestunum þurfa að hafa undirgengist fullnaðar kynbótadóm auk þess sem reglur um kynbótasýningar gilda hvað varðar járningu nema hrossin taki sannarlega þátt í gæðinga eða íþróttakeppni sama móts.
Kveðja,
Guðlaugur V. Antonsson
Hrossaræktarráðunautur BÍ
ga@bondi.is