
Forystumaður evrópskra bænda í heimsókn á Íslandi
04.02.2009
Pekka Pesonen, finnskur framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna COPA-Cogeca, heimsótti Ísland í gær og hélt erindi á fundi Samfylkingarinnar um Evrópusambandið og íslenskan landbúnað. Hann heimsótti einnig Bændasamtökin sem eiga aðild að COPA og átti fund með forsvarsmönnum þeirra.
Pesonen sagðist ekki vera kominn til Íslands til þess að hafa áhrif á það hvort Íslendingar sæktu um aðild að Evrópusambandinu eður ei, það væri ákvörðun Íslendinga sjálfra. Hins vegar benti hann á að ef til umsóknar kæmi væri ákaflega brýnt að stjórnvöld gleymdu ekki hagsmunum landbúnaðarins í aðildarviðræðunum, það myndi reynast þjóðinni dýrt.
Höfuðstöðvar COPA-Cogeca eru í Brussel og meginstarfsemi þeirra er að stunda lobbíisma á vettvangi Evrópusambandsins og vera stjórnendum ESB til ráðgjafar í landbúnaðarmálum. Þótt Pesonen sé Finni vildi hann ekki láta hafa mikið eftir sér um finnskan landbúnað og afdrif hans í ESB, hann væri talsmaður allra aðildarfélaganna í álfunni, 60 bændasamtaka og 35 samvinnusamtaka í landbúnaði.
Nánar verður sagt frá heimsókn Pekka Pesonen í næsta Bændablaði.