
Forstjórinn sagði upp í kjölfar uppgjörs Fonterra
09.04.2018
Theo Spierings, sem hefur verið forstjóri nýsjálenska afurðafélagsins Fonterra síðustu sjö árin, hefur sagt af sér í kjölfar þess að félagið birti uppgjör sitt fyrir fyrri helming rekstrarársins 2017-2018 en félagið gerir upp rekstur sinn frá ágúst til júlí loka ár hvert. Fyrstu sex mánuðina tapaði Fonterra gríðarlegum fjármunum, um 24,6 milljörðum íslenskra króna, en skýringin felst m.a. í miklu tapi félagsins vegna sölu á mjólkurdufti fyrir ungabörn í Kína.
Fonterra er lang stærsta afurðafélagið á heimsmarkaðinum og nemur árleg innvigtun þess á mjólk um 22 milljörðum kílóa. Einungis bandaríska afurðafélagið Dairy Farmers of America er með meiri innvigtun á ári eða um 28 milljarða kílóa/SS.