Beint í efni

Forseti Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda biðlar til bænda og ríkisstjórna

28.04.2008

Jack Wilkinson, forseti Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda (IFAP), skrifar grein í nýjasta tölublað Bændablaðsins þar sem að fram kemur að staðan á matvælabirgðum heimsins hafi ekki verið verri síðan 1974. Hann segir að ríkisstjórnir og bændur hafi það í hendi sér að geta leyst matvælavandann innan eins eða tveggja ára. Það sem þurfi til sé að samstilla krafta og þróa samhæfða landbúnaðarstefnu sem miða eigi að því að auka verulega matvælaframleiðslu í þróunarlöndunum á næstu fimm árum. Einungis með þeim hætti verði hægt að snúa við þróun í verði á eldsneyti og aðföngum.

Hér að neðan er grein Jack Wilkinson sem birtist í 8. tbl. Bændablaðsins:

Landbúnaðarstefna mótuð af bændum - svarið við matvælaskorti heimsins

Í fréttum sjáum við stórar fyrirsagnir um matvælaskort og uppþot sem breiðast út um þéttbýlissvæði þróunarlanda heimsins og lesum æ svartsýnni skýrslur um yfirvofandi hungursneyð. Við höfum aftur á móti ekki séð neinar raunverulegar mótvægisaðgerðir sem miða að því að mæta forsendum þessa vandamáls með brýnum og skipulögðum hætti. Ríkisstjórnir þurfa að vakna til lífsins og hefja það starf að brauðfæða þjóðir sínar.

Matvælabirgðir heimsins eru í lágmarki og hafa ekki verið minni frá árinu 1974 og enn einu sinni sjáum við matvælaverð setja nýtt met. Við vitum að allt sem þarf er að uppskeran bregðist einu sinni enn, og þá stöndum við frammi fyrir raunverulegum matvælaskorti, ekki bara tímabundnu hallæri. Á meðan sitja ríkisstjórnir aðgerðalausar og bíða eftir því að stóru landbúnaðarfyrirtækin færi þeim lausnina á silfurfati.

Stórfyrirtæki í landbúnaði hafa ekki á að skipa lausn við matvælavanda heimsins. Það er skoðun IFAP að ríkisstjórnir, ásamt bændum í hverju landi fyrir sig, ásamt landbúnaðarvísindamönnum og öðrum hagsmunaaðilum, gætu leyst matvælavandann innan eins eða tveggja ára.

IFAP kallar á bændur að vinna í samvinnu við ríkisstjórnir sinna landa að því að þróa samhæfða landbúnaðarstefnu sem miðar að því að auka verulega matvælaframleiðslu í þróunarlöndunum á næstu fimm árum. Við skorum einnig á Alþjóðabankann, hjálparstofnanir og aðrar alþjóðastofnanir og tvíhliða stofnanir að beina sínu fjármagni að þessum stefnumótandi aðgerðum bænda sem munu mæta þeim raunverulegu vandamálum sem bændur standa frammi fyrir frá degi til dags við framleiðslu og markaðssetningu. Þessi nálgun mun taka á þeim raunverulegu grundvallarforsendum sem eiga þátt í því að mynda varanlegar og sjálfbærar lausnir.

Ef þessi stefna er ekki mótuð, munum við líklega sjá minnkandi framleiðslu og vaxandi matvælaskort á næstunni, þar sem kostnaður bænda fer vaxandi vegna hækkandi olíuverðs sem gerir það að verkum að sumir bændur hafa ekki lengur efni á því að kaupa sér eldsneyti. Áburðarverð hefur tvöfaldast einungis á síðasta ári. Flutningskostnaður hefur aukist um 100 prósent fyrir hvert ár, síðustu þrjú árin. Verð á sáðkorni hefur einnig nærri tvöfaldast á undanförnum árum. Hvar eru mótvægisaðgerðir ríkisstjórna sem eiga að hjálpa bændum að mæta auknum kostnaði aðfanga? Hvernig er lánafyrirkomulagi gagnvart bændum háttað, þannig að þeir geti keypt sér sáðkorn?

Dæmi um það hversu rangar aðferðir eru notaðar til að mæta þessum matvælaskorti, má sjá í löndum sem greiða meira fyrir innflutning korns, en þau greiða sínum eigin bændum fyrir framleiðslu innanlands. Til dæmis, Indland greiðir í dag tvisvar sinnum meira fyrir innflutt korn en þeir greiða sínum eigin bændum fyrir framleiðsluna. Hvernig getur slík stefna viðhaldið innra hagkerfi landsins og jafnframt styrkt bændur í því að viðhalda matvælaöryggi í landinu?

Ennfremur, má nefna einn af þeim þáttum matvælaskortsins sem er mest vanræktur en það er framleiðslutap eftir uppskeru. Í allmörgum löndum tapast allt að 30 prósent kornuppskerunnar vegna óviðunandi geymsluaðstæðna, lélegs tækjabúnaðar og vegna þess að samgöngur og innviðir samfélagsins eru vanþróaðir. Einfaldur hlutur eins og að kaupa kornhreinsivél og gera hana tiltæka fyrir bændur, eða það að byggja rottuheldar korngeymslur og lyftur getur aukið verulega bæði gæði og magn þess matar sem er tiltækur; nokkrar grundvallaraðgerðir af hálfu ríkisstjórna geta því áorkað miklu í því átaki að mæta núverandi matvælaskorti.

Þegar bændur heimsins hittast á alþjóðlegri ráðstefnu sinni í Varsjá frá 30.maí til 6.júní 2008, munu þeir ræða þær aðgerðir sem bændur geta gripið til í því augnamiði að auka framleiðslu og vinna bug á matvælaskorti. Fyrst og fremst munu þeir leggja fram tillögur að því hvernig þeir geta unnið í samstarfi við sínar ríkisstjórnir. Þeir munu einnig krefjast frekari fjárfestinga í landbúnaði og innviðum landbúnaðargeirans, fjárfestinga sem löngu eru orðnar tímabærar.

Mannkynið hefur nóg ræktarland og nægan fjölda bænda. Okkur skortir einungis rétta stefnu í landbúnaðarmálum. Það er kominn tími til aðgerða í stað umræðu, það er kominn tími til að sá í akra í staðinn fyrir að halda ráðstefnur, og það er kominn tími fyrir ríkisstjórnir heimsins – ásamt samtökum bænda – að axla ábyrgð sína af festu og alvöru.

Jack Wilkinson
Forseti Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda (IFAP)