
Formannsskipti hjá Nautgripabændum BÍ
15.02.2023
Á Búgreinaþingi Nautgripabænda sem haldið verður dagana 22. og 23. febrúar næstkomandi verður nýr formaður Nautgripabænda BÍ kjörinn. Herdís Magna Gunnarsdóttir, sitjandi formaður mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formannssetu.
Á Búgreinaþingi 2022 voru samþykktar nýjar samþykktir fyrir deildina þar sem kveðið er á um að formaður skuli kosinn til tveggja ára í senn. Á Aukabúgreinaþingi sem haldið var í lok síðasta mánaðar var ákveðið að ef formaður hættir störfum á kjörtímabilinu skuli nýr formaður kosinn út kjörtímabil fráfarandi formanns, á næsta Búgreinaþingi. Þannig verður formaður kosinn til eins árs á þinginu í næstu viku.
Allir fullgildir félagsmenn í búgreinadeild Nautgripabænda BÍ geta gefið kost á sér til formannssetu og þannig gegnt trúnaðarstörfum fyrir deildina. Það sama gildir um framboð til setu í stjórn og varastjórn Nautgripabænda BÍ, allir fullgildir félagsmenn í deildinni eru í kjöri en kjósa þarf fjóra meðstjórnendur auk þriggja varamanna.
Í dag sitja Rafn Bergsson, Bessi Freyr Vésteinsson, Vaka Sigurðardóttir og Sigurbjörg Ottesen í stjórn Nautgripabænda BÍ og munu þau öll gefa áframhaldandi kost á sér. Fyrsti varamaður í stjórn er Guðrún Eik Skúladóttir, gefur hún einnig áframhaldandi kost á sér sem varamaður. Annar varamaður í stjórn er Sigrún Hanna Sigurðardóttir og þriðji varamaður í stjórn er Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir en Alla hefur tekið þá ákvörðun að gefa ekki áframhaldandi kost á sér.
Hafi fólk áhuga á því að bjóða sig fram og kynna sig, hvort sem það er til formanns, í stjórn eða varastjórn hvetjum við viðkomandi eindregið til að hafa samband við Guðrúnu Björgu (gudrunbjorg@bondi.is) og mun hún sjá um að koma umbeðnum upplýsingum á elstu miðla deildarinnar.