Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Formannsefnin yfirheyrð!

26.03.2016

Nú í aðdraganda formannskosninga fengum við þá tvo frambjóðendur sem hafa opinberlega gefið út að þeir gefi kost á sér, Jóhann Nikulásson frá Stóru-Hildisey 2 og Arnar Árnason frá Hranastöðum, til þess að svara 15 spurningum sem lúta að ýmsum málefnum búgreinarinnar.

 

1. Ef þú nærð kjöri sem formaður LK, hver verða þín helstu áherslumál í starfinu næsta árið?

 

Arnar: Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan síðasti aðalfundur var haldinn. Fyrir liggur nýr búvörusamningur sem, verði hann samþykktur, setur greininni ramma til tíu ára. Ég mun, nái ég kjöri sem formaður, einbeita mér að því klára þau mál sem að samningunum snúa en mikil vinna er eftir við að útfæra ýmsar greinar hans sem útheimtir á næstunni nokkra yfirlegu og ekki síst samtal innan greinarinnar.

 

Fyrir liggur sá raunveruleiki að búnaðargjaldið er að hverfa og munu samtökin þurfa að fjármagna sig á nýjan hátt í framtíðinni. Það  liggur fyrir tillaga frá starfshópi innan LK um hvernig skuli að því staðið og er það ljóst að við þurfum að aðlaga samtökin að breyttum veruleika í þessu efni. Við þurfum á hverjum tíma að vera tilbúin að rýna reksturinn á samtökunum okkar og hugsanlega þurfum við að bregðast við lækkandi rekstrartekjum í kjölfar þessarra breytinga.

 

Umræðan í aðdraganda búvörusamningana var á stundum svolítið hressileg og tókust menn á um ýmis málefni greinarinnar s.s. kvótakerfi og vinnubrögð. Það var gott og algerlega nauðsynlegt að fram færi umræða þar sem þeir sem hagsmuni áttu, gátu komið að og lagt orð  í belg. Við kúabændur þurfum að þjappa okkur saman og birtast sem einn maður útávið þó að það sé morgunljóst að það verða aldrei allir sammála um alla hluti en við eigum að taka rökræðuna inná við og birtast sem heild útá við. Ég lít á þetta sem verkefni útaf fyrir sig og ælta að vinna heilshugar að því nái ég kjöri.

 

Jóhann: Eitt af fyrstu verkefnum nýkjörinnar stjórnar er að finna nýjan eftirmann núverandi framkvæmdastjóra, en hann hefur sagt upp starfi sínu frá og með 1. apríl næstkomandi. En hins vegar er án efa eitt mikilvægasta verkefni nýrrar stjórnar ýmis undirbúningsvinna vegna gildistöku nýs samnings um starfsskilyrði greinarinnar og útfærsla verklagsreglna um úthlutun fjármuna úr nýjum samningi. Um sum þeirra hafa þegar verið mótaðar verklagsreglur sem byggja á eldri samningi, en kunna að þarfnast endurskoðunar í samræmi við nýjan samning. Aðrir liðir eru nýjir og um þá þarf að móta reglurnar frá grunni. Á það við svo dæmi sé tekið um stuðningsgreiðslur vegna nautakjötsframleiðslu og fjárfestingastuðning. Afar mikilvægt er að að búið sé að hnýta alla lausa enda áður en samningarnir taka gildi um næstkomandi áramót.

 

Þá mun ég leggja áherslu á að meiri þungi sé settur í að koma hagsmunum greinarinnar á framfæri í opinberri umræðu. Þá er ég eindregið þeirrar skoðunar að samtökin eigi að skjóta styrkari stoðum undir samstarf samtakanna og Bændasamtaka Íslands með það að markmiði að efla samhljóm í málflutning samtaka bænda um hagsmumi landbúnaðar í samfélaginu.

 

Ennfremur tel ég mikilvægt að stjórn leiti eftir samstarfi við Matvælastofnun, búnaðarsamböndin og RML um að gera úttekt á umfangi vegna nauðsynlegra endurbóta á fjósum hérlendis, í samræmi við ákvæði reglugerðar 1065/2014 um velferð nautgripa og að tímamörk vegna nauðsynlegra endurbóta samkvæmt reglugerðinni verði endurskoðuð, þar sem þau voru í mörgum tilfellum afar knöpp. Ég tel nauðsynlegt að innan stoðkerfisins verði komið á laggirnar starfshópi sem nautgripaeigendur geta leitað til varðandi áætlunargerðar um nauðsynlegar úrbætur á aðbúnaði gripanna.

 

Það liggur jafnframt fyrir að sá tekjustofn sem samtökin hafa byggt rekstrargrundvöll sinn á, búnaðargjaldið, er á útleið. Ég er þeirrar skoðunar að skilvirkasta leiðin til þess að sem flestir framleiðendur nautgripaafurða kjósi að sameinast um hagsmuni sína innan LK sé að virkja samtakamátt þeirra gegnum aðildarfélögin. Fyrir komandi aðalfundi  liggur fyrir tillaga að breytingum á samþykktum samtakanna. Í þeim tillögum er gert ráð fyrir að innheimt verði félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr.ltr.mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem lagður er inn í afurðastöð. Hugmyndin er svo að félagsgjaldið verði svo nýtt til reksturs LK sem og allra aðildarfélaga þess og ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og aðildarfélaga sé tekin árlega á aðalfundi samtakanna. Samhliða tel ég afar mikilvægt að stjórn LK beiti sér fyrir gerð rammasamninga við söluaðila á helstu rekstrarvörum greinarinnar með það markmið að ná niður verði á lykilaðfanga. Nú nýverið gerði Landssamband smábátaeiganda slíkan rammasamning vegna olíuviðskiftafélagsmanna sinna sem skilar þeim verulegri verðlækkun svo nærtækt dæmi sé tekið.

 

2. Nú í aðdraganda samninga við hið opinbera voru margir á öndverðum meiði við samninganefnd bænda, sem þó starfaði eftir gildandi samþykktum aðalfundar búgreinarinnar. Beinir þetta sjónum að gildi fulltrúalýðræðis. Nú markar aðalfundur LK stefnu með margskonar samþykktum. Telur þú að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri séu ekki bundnir af þeirri stefnu sem aðalfundur ákveður hverju sinni og geti unnið að málefnum sem eru ekki í anda samþykkta aðalfundar?

 

Jóhann: Í samþykktum LK grein 5.1. segir „Aðalfund skal halda árlega og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum LK.“Að framangreindu er því í mínum huga algerlega ljóst að forsvarsmönnum samtakanna, sama hvaða nafni þeir nefnast, ber án nokkurs vafa að  framfylgja ályktunum aðalfundar.Hvað varðar nýlega undirritaða búvörusamninga og þá umræðu alla sem varð í kjölfar kynningarfunda um efnisatriði samningsins þá tel ég nauðsynlegt að ryfja upp nokkur atriði:

 

Í fyrsta lagi þá gekk samninganefnd kúabænda til þeirra viðræðna nestuð all ítarlegri ályktun síðasta aðalfundar LK um samningsmarkmið búvörusamninga Í ályktun aðalfundar er m.a. kveðið á um að „á samningstímanum, sem verði að lágmarki 10 ár, skuli horfið frá kvótakerfinu og að eitt verð skuli greitt fyrir alla mjólk“. Minni á að ályktunin var samþykkt samhljóða á fundinum. Undir lok nóvember hélt samninganefnd bænda kynningarfundi um stöðuna í viðræðunum á fjórum stöðum á landinu. Fulltrúafundur LK um sama efni var haldinn 24. nóvember síðastliðinn, en á þeim fundi kom fram tillaga þess efnis „að viðhalda framleiðslustýringu í greininni“. Sú tillaga hlaut ekki samþykki fundarins. En eftir því sem frá leið varð forsvarsmönnum samtakanna ljóst að ekki næðist nægjanlega breið samstaða meðal mjólkurframleiðanda um þetta atriði og í ljósi þess var lagt til að fram færi atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðanda um hvort kvótakerfið skuli afnumið.

 

Það er mitt mat að þrátt fyrir þessa breytingu þá sé samningurinn í anda ályktunar um samningsmarkmið búvörusamninga frá aðalfundi 2015 og af þeim sökum ekki á skjön við samþykktir samtakanna.

 

Á félagslegum vettvangi kúabænda hefur alloft á undangengnum árum farið fram umræða um hvort til sé betri leið en fulltrúalýðræði í starfi samtakanna það hefur hinsvegar verið niðurstaða flestra að svo sé ekki.

 

Arnar: Það er algjörlega ljóst að í samtökum eins og LK (og reyndar öllum samtökum og félögum) er aðalfundur æðsta vald. Það á aldrei að sætta sig við að einhverjir einstaklingar sem starfa fyrir samtökin taki sér vald umfram það sem aðalfundur hefur ákveðið. Stjórn og framkvæmdarstjóri eru alltaf bundin af ákvörðunum aðalfundar í stefnumarkandi málum félags en hafa svo eðli málsins samkvæmt frjálsari hendur með daglegann rekstur þar sem taka þarf ákvarðanir fljótt og bregðast við því sem upp kemur. Óánægjan sem birtist í umræðunni um gerð búvörusamnings og störf samninganefndar tel ég hafi verið vegna þess að samþykktir síðasta aðalfundar voru ekki nógu skýrar og því voru menn ekki á eitt sáttir um það hvort verið væri að fara eftir samþykktum síðasta aðalfundar eða ekki. Vanda verður vel til verka á aðalfundum og mikilvægt að gögn komi fram tímalega fyrir þá svo fulltrúar geti undirbúið sig vel og átt samtal innan síns félags um þau málefni sem taka á fyrir. Ekki síst á þetta við um tilllögir sem koma beint frá stjórn vegna þess að fulltrúar aðildarfélaga verða að eiga þess kost að ræða þær í sínum félögum. Ekkert bannar það hinsvegar að einstaka stjórnarmenn taki umræðu um útfræslur eða lausnir einstakra mála enda séu færð fyrir því góð rök. Það er ekki hlutverk stjórnarinnar að þagga niður í þeim sem vilja koma með nýjan vinkil á málin, heldur þvert á móti að hlusta.

 

3. Fagráð í nautgriparækt er starfrækt í skjóli LK og BÍ og mikilvæg stofnun sem m.a. ber ábyrgð á ræktunarstarfinu auk þess að hafa áhrif á margskonar vísindastarf í landinu á sviði nautgriparæktar. Þar sem venjan er að formaður LK sitji sem fulltrúi. Á hvað munt þú leggja áherslu á í starfi Fagráðsins, fáir þú eitthvað um það ráðið?

 

Arnar: Fagráð er afar mikilvæg stofnun. Nú í ljósi nýjustu fregna um hugsanlega innleiðingu úrvals á grunni erfðamengis, sem á ensku kallast „genomic selection“, hingað til Íslands (tillaga frá stjórn LK liggur fyrir komandi aðalfundi) hefur það sennilega aldrei verið mikilvægara að halda þétt utanum þennan þátt vegna þess að þarna gætu verið að skapast skilyrði til að flýta mikið erfðaframförum í íslenska kúastofninum. Mínar áherslur koma til með að lúta að þessu nýja verkefni, byggja undir það og tryggja því brautargengi.

 

Jóhann: Fari svo, sem ég svo sannarlega vona, að komandi aðalfundur samþykki tillögu um að kanna möguleika á innleiðingu úrvals á grunni erfðamengis (geonomic selection) í  kynbótastarfi nautgriparæktarinnar, mun ég leggja höfuðáherslu á framgang þess innan Fagráðsins, enda er hér um að ræða mestu byltingu í hérlendu ræktunarstarfi frá upphafi. Þá tel ég að auka þurfi ábyrgð fulltrúa bænda í Fagráðinu á vali á þeim nautkálfum sem teknir eru inn á nautastöðina, mér hefur á stundum fundist þeim aðilum sem þar hafa ráðið för nokkuð mislagðar hendur í þessum efnum.

 

4. Hvaða skoðun hefur þú á þeim búvörusamningi sem nú liggur fyrir og er verið að kjósa um?

 

Jóhann: Er sammála honum í öllum meginatriðum og tel að afar mikilvægt að með honum er búið að tryggja starfsumhverfi og fjárframlög til greinarinnar til tíu ára.

 

Arnar: Nýr búvörusamningur hefur litil dagsins ljós. Með honum verða þónokkrar breytingar á starfskilyrðum nautgriparæktar á Íslandi. Að ætla sér að kryfja hann til mergjar á þessum vettvangi er varla gerlegt en ég stikla hér á nokkrum atriðum. Eitt af því jákvæð við samningin er að hann er til 10 ára en því er ekki að neita að það eru í honum atriði sem ég hefði viljað komast hjá. Þar ber fyrst að nefna þá meginbreytingu að skv. honum á að greiða beingreiðslur á alla innvegna mjólk, hvort sem hún fer til útflutnings eða nýtist á innalandsmarkað. Með þessu erum við að innleiða nokkurskonar útflutningsbætur þar sem hluta ríkisstuðnings er ráðstafað á mjólk sem flutt verður úr landi. Það eru þónokkur atriði óútfærð í samningnum ennþá en því er ekki að neita að það er dapurleg staðreynd að við sjáum fram á afurðaverðslækkun og þar af leiðandi launalækkun, en þetta er að gerast á sama  tíma og flestar aðrar stéttir í landinu semja um umtalsverðar launahækkanir.

 

5. Eru að þínu mati ástæða til þess að halda áfram með samstarfsnefnd BÍ og SAM og ef svo er, á hvað á að leggja áherslu í því starfi?

 

Arnar: Samstarfnefnd BÍ og SAM hefur undanfarin ár gert tillögu um heildargreiðslumark sem og fer yfir og staðfestir mjólkuruppgjör hvers árs. Í búvörusamningnum er gert ráð fyrir greiðslumarkskerfi áfram og því nauðsynlegt að um það sé einhver umgjörð, hvort það er þessi nefnd eða að einhver önnur. Þetta er útfærsluatriði sem við komum okkur saman um í framhaldinu.

 

Jóhann: Já það er ástæða til að halda áfram starfi Samstarfsnefndar SAM og BÍ.  Samstarfsnefndin hefur starfað frá árinu 1994 og mikilvægasta verkefni hennar er að annast uppgjör og afstemmingar vegna útflutnings mjólkur sem framleidd er utan greiðslumarks, á grundvelli ákvæðis 29. greinar Búvörulaga (nr. 99/1993 með breytingum).  Í starfi nefndarinnar á að leggja áherslu á að halda þeim forgangi sem mjólk framleidd innan greiðslumarks hefur á innanlandsmarkað, til að unnt sé að framfylgja Búvörusamningum. Á meðan að greiðslumark og lágmarksverð á mjólk innan greiðslumarks er í gildi, þá er grundvallaratriði að halda utan um að kerfið virki. Kerfi með lögboðnu lágmarksverði sem sumir þurfa að borga en aðrir ekki er dauðadæmt.

 

Svo er allt annað mál hvað nefndin leggur áherslu á fari svo að greiðslumarkið verði fellt niður, en nefndin er engu að síður afar mikilvægur vettvangur skoðanaskipta milli samtaka bænda og mjólkuriðnaðarins.

 

6. Málefni Nautastöðvar BÍ hefur oft verið rætt á fundum LK og vilji LK verið til þess að stjórna eigin kynbótamálum greinarinnar að fullu. Hver er þín skoðun á þessu?

 

Jóhann: Mjög mikilvægt er að mínu mati að auka beina aðkomu og ábyrgð kúabænda sjálfra á ræktunarstarfi nautgripa og um það ríki sátt meðal aðila. Hugsanlega hefur nú skapast  flötur á þessu máli í kjölfar nýrra búvörusamninga og fyrirhugaðs samstarfs LK og BÍ um rekstur einangrunarstöðvar fyrir holdanautgripi. Í ljósi þess ákvað stjórn LK að leggja málið að nýju fyrir aðalfund þannig að sterkara umboð fáist til að vinna málið áfram.

 

Arnar: Það er mín skoðun að LK eigi að hafa mikið um það að segja hvernig ræktunarmálum er háttað í greininni. LK er einmitt hagsmunafélag okkar sem höfum lifibrauð af ræktun nautgripaafurða og hvar er kröftum betur varið en til eflingar ræktunarstarfs? Ég hef hingað til ekki tekið þátt í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál á vettvangi LK og hugleiðingar um eignaraðild nautastöðvarinnar eða rekstrarform hennar hef ég ekki gert upp við mig en hyggst að sjálfsögðu sækja í brunn þeirra sem sett hafa sig inn í málið.

 

7. Málefni MS hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu og ljóst að sem stendur er umframframleiðslan á mjólk töluverð. Hvað telur þú að sé rétt að gera varðandi framleiðslustöðuna í dag og hvernig sérðu fyrir þér framtíð MS?

 

Arnar: Staða MS og sá vandi sem menn standa frammi fyrir þar er nokkuð umfangsmikill. Miklu meiri mjólk en menn reiknuðu með að nokkurntíma yrði hægt að framleiða með íslenskum kúm streymir nú inn í móttökusali MS og enginn virðist vita hvernig eigi að bregðast við. Stjórn MS gaf það út, með nokkuð miklum fyrirvara, að MS hyggðist kaupa alla framleiðslu út 2016 fullu afurðarstöðvaverði og ítrekaði stjórnarformaður þá ákvörðun í nóvember 2015. Það er ljóst að á meðan ákvörðunin um fullt afurðarstöðvarverð er í gildi munu bændur ekki draga úr sinni framleiðslu og verður MS að umgangast málið með þeim hætti. Það er enginn kostur góður í þessari stöðu margir bændur bjuggu sig undir þessa ákvörðun MS með því t.d. að kaupa kvígur og hey, auka kjarnfóðurgjöf, auka ásetning o.s.fr.v. þannig að það getur komið sér mjög illa fyrir marga ef ákvörðuninni verður breytt vegna þess að menn hafa lagt í kostnað til að bregðast við ákallinu sem þeir hafa ekki enn sem komið er fengið til baka. Ef aftur á móti MS bregst við ástandinu með því að ákveða að gera ekkert þ.e. breyta ekki fyrri ákvörðun mun það hafa í för með sér þónokkur fjárútlát af hálfu MS en þess ber að geta að í máli stjórnenda MS hefur komið fram að tap á hverjum umframlítra sem afsetja þarf á erlendann markað í form osts eða dufts er 60-75 kr/ltr. Framtíð MS er engu að síður björt, eiginfjárstaða er sterk og stjórnendur eru reynslunni ríkari.

 

Jóhann: Í ljósi þess hvernig innvigtun hefur þróast það sem af er ári, tel ég afar mikilvægt að dregið verði úr hvötum til aukinnar framleiðslu sem fyrst, svo jafnvægi skapist í framleiðslumálum. Jafnframt er mikilvægt að birgðastýring mjólkurafurða taki mið af sveiflukenndum markaði. Hvað varðar mína sýn á framtíð fyrirtækisins þá tel ég afar brýnt að unnið sé með markvissari hætti að bættri ímynd fyrirtækisins í samfélaginu og áfram verði unnið ötullega að markaðsmálum á innlendum og síðast en ekki síst á betur borgandi mörkuðum erlendis.

 

8. Í nýjum samningi um starfskilyrði nautgriparæktar er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á starfsháttum varðandi verðlagningu mjólkur, þar sem m.a. er ekki lengur gert ráð fyrir beinni aðkomu hagsmunaaðila að verðlagsnefnd. Hvernig sér þú aðkomu LK að þessum málum í breyttu umhverfi og á hvað munt þú leggja áherslu á í því starfi sem framundan er?

 

Jóhann: Í frumvarpi til laga, um breytingar á búvörulögum nr 99/1993 er gert ráð fyrir að Verðlagningarnefnd taki við af núverandi Verðlagsnefnd með breyttu skipulagi. Ráðherra landbúnaðarmála skipi þriggja manna nefnd sem sé þannig samsett að nefndarmenn búi yfir þekkingu á sviði rekstrar, reikningsskila fyrirtækja,hagfræði og lögfræði. Hlutverk nefndarinnar sé að setja afurðastöðvum mjólkur í markaðsráðandi stöðu tekjumörk. Afurðastöð verðleggur mjólk til framleiðenda og ákveður heildsöluverð á mjólkurafurðum, en verðlagningarnefnd mjólkurvara skal ákveða verð til framleiðenda fyrir mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks og er þá afurðastöð skylt að greiða það verð.Þá er gert ráð fyrir að Hagstofa Íslands afli fullnægjandi gagna fyrir verðlagningarnefnd mjólkurvara um framleiðslukostnað búvara og aðra kostnaðarliði sem nefndin þarf á að halda vegna starfa sinna.Þetta er umtalsverð breyting frá því fyrirkomulagi sem unnið hefur verið útfrá nú um langa hríð. Ég hef í ljósi þess hvernig Hagstofa Íslands hefur staðið að málum varðandi uppgjör búreikninga all nokkrar áhyggjur af þessum þætti og tel algera nauðsyn á að greinin sjálf komi á fót virkri afkomuvöktun og fylgist grannt með verðþróun helstu kostnaðarliða til mjólkurframleiðslu. Þá er í samningnum um starfskilyrði greinarinnar ennfremur ákvæði um bókhaldslegan aðskilnað á innlendri og erlendri starfsemi mjólkuriðnaðarins. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði þar sem staðan er í dag sú að innanlandsmarkaðurinn stendur ekki undir því afurðaverði sem greitt er til mjólkurframleiðenda nú um stundir. Í mínum huga mjög mikilvægt að frelsi mjólkuriðnaðarins til verðlagningar einstakra vöruflokka sé nýtt til þess að rétta af þennan halla og hagnaður af starfsemi iðnaðarins á erlendum vettvangi sé nýttur til uppbyggingar á því sviði.

 

Arnar: Varðandi verðlagsmál mjólkur í nýjum búvörusamningi þar sem gert er ráð fyrir að „sérfræðinganefnd“ komi til með að gera tillögur að mjólkurverði er mikilvægast fyrir okkur kúabændur að sú nefnd sé þannig samansett að hún virki fyrir okkur og eigi ekki í hættu að lenda upp á skeri líkt og staðreyndin var með núverandi verðlagsnefnd. Þetta er algjört lykilatriði í nýjum búvörusamningi en er enn sem komið er ótúfært.  Aðkoma LK  getur einnig falist í því að tryggja að „sérfræðinganefndin“  eigi á hverjum tíma greiðann aðgang að lifandi rekstrargögnum sem gert er ráð fyrir að mjólkurverðið byggi á.

 

9. Nú eru fimm ár liðin frá því að LK lagði fram stefnumörkun búgreinarinnar „Stefnumörkun 2021“. Hvernig finnst þér hafa tekist til þessa og er ástæða til þess að endurskoða þessa stefnumörkun?

 

Arnar: Stefnumörkun samtaka eins og LK má líkja við aðalskipulag sveitarfélags. Í því eru stóru línurnar dregnar og menn koma sér saman um hvert eigi að stefna. Stefnumörkun, líkt og aðalskipulag, þarf að vera í sífeldri endurskoðun og er þetta eitt af málunum sem brenna hvað heitast á mér þessar vikurnar. Það er nauðsynlegt að taka upp þessa stefnumörkun í ljósi þess að nú liggur fyrir 10 ára samningur um starfsskilyrði, yfirfara hana og endurskrifa eins og frekast er unnt og aðlaga hana þeim veruleika sem við blasir.

 

Jóhann: Stefnumörkunin var góð og rétt á sínum tíma og nú er rétt að fara yfir hana og endurskoða á komandi starfsári með hliðsjón af því að nýr samningur um starfsskilyrði greinarinnar tekur ef af líkum lætur gildi um næstu áramót.

 

10. Nautakjötsframleiðslan annar ekki eftirspurninni og því er mikið flutt inn í dag af erlendu kjöti. Hvað er til ráða að þínu mati?

 

Jóhann: Í nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar eru þau nýmæli að nú er í fyrsta sinn um að ræða sértækan stuðning við þessa grein ef frá er talinn stuðningur út á holdkýr í formi gripagreiðslna. Á samningstímanum eru ætlaðir í þennan þátt tæplega 1,5 milljarðar að vísu fer hluti þess til uppbyggingar einangrunarstöðvar fyrir holdagripi en meginhlutinn fer sem álagsgreiðsla á sláturgripi. Þeim fjármunum er ætlað að stuðla því að mun fleiri sjái sér hag í að vanda til uppeldisins og ali gripina á kraftmiklu fóðri, sem skili ungum holdmiklum gripum í afurðastöð. Síðan er ekkert eitt atriði sem gæti haft jafn mikil áhrif að þessu leiti og ef  raunin er sú að hérlendir kúabændur geti nýtt sér „úrval á grunni erfðamengis“(geonomic selection) og fundið út með þeirri aðferð bestu ræktunargripina í eigin hjörð og í framhaldinu notað kyngreint „kvígusæði“ á þá og sæði úr holdanautastofnum á hina. Ég er þess fullviss að það felast mjög mikil tækifæri fyrir þá sem kjósa að hasla sér völl á vettvangi framleiðslu nautakjöts á komandi árum. Auk þess sem að ofan er rakið mun innflutningur á nýju erfðaefni í holdanautastofnana án efa auka til muna arðsemi í þessari grein.

 

Arnar: Það er staðreynd að það vantar nautakjöt heimamarkaðinn okkar. Ekki hjálpaði það til að menn steinhættu að slátra kúm á tímabili vegna loforða um fullt afurðastöðvaverð. Fyrir liggur að teknar hafa verið ákvarðanir um að styrkja holdanautastofnin á Íslandi og verður þetta mál eflaust þónokkuð rætt á aðalfundi LK sem senn fer í hönd. Þessi skref eru að mínu mati algerlega nauðsynleg til að reyna að tryggja til langrar framtíðar, framboð nautakjöts framleiddu hér á landi. Settir verða peningar úr samningnum í þennan málaflokk og nái ég kjöri sem formaður mun ég beita mér fyrir því að þetta mál nái fram að ganga og verði klárað. Fram að því vofir yfir okkur aukinn innflutningur þó sennilegt sé að slátrun mjólkurkúa muni aukast þegar líður að næstu áramótum enda líklegt að einhverjir bændur þurfi að draga úr sinni mjólkurframleiðslu. Aldrei verður minnst of oft á tollverndina í þessu sambandi en hún er okkur gríðarlega mikilvæg, ekki síður í kjötinu en mjólkinni.

 

11. LK hefur um langt árabil barist fyrir því að fá inn nýtt erfðaefni í hjarðir holdanautabænda og talið það eina helstu forsendu þess að bæta afkomu þess hluta umbjóenda sinna sem þá framleiðslu stunda. Á liðnu ári voru gerðar breytingar á lögum um innflutning dýra sem eiga að gera innfluttning erfðaefnis holdanauta auðveldari og eins er í nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar gert ráð fyrir fjármunum til reksturs einangrunarstöðvar vegna þessa. Hvernig á aðkoma LK að þessu máli að vera í framhaldinu og á hvað munt þú leggja áherslu sem formaður í þessu efni?

 

Arnar: Eftirfarandi tillaga liggur fyrir aðalfundinum varðandi málefni holdanautastöðvar „Í undirbúningi er uppsetning einangrunarstöðvar fyrir holdanautgripi í tengslum við tilraunabúið á Stóra-Ármóti, sem rekin verði af Nautgriparæktarmiðstöð Íslands, sem er í eigu Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands. Fyrst um sinn verða fluttir inn fósturvísar af Angus kyninu frá Noregi og þeim komið fyrir í kúm af íslenskum stofni. Til að tryggja aðgengi allra bænda að nýju erfðaefni, verður tekið sæði úr efnilegustu nautkálfunum sem þannig koma í heiminn en þeir síðan seldir til notkunar sem kynbótagripir í hjörðum bænda.“ Eins og áður segi mun ég beita mér fyrir því að málið verði klárað.

 

Jóhann: Ég tel farsælast að Landssamband kúabænda, Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands standi sameiginlega að verkefninu og unnið verði að uppbyggingu ræktunarkjarna úrvalsholdagripa í fyrirhugaðri einangrunarstöð á Stóra-Ármóti, eins og lagt hefur verið upp með. Uppbygging á slíkum ræktunarkjarna tekur nokkur ár og er mjög kostnaðarsöm, þar sem hún er eingöngu raunhæf með fósturvísainnflutningi. Í framhaldinu verði ræktunarkjarnanum viðhaldið með sæðisinnflutningi úr afkvæmaprófuðum nautum, erfðaframförum vegna kynbóta holdagripanna komið hingað til lands með þeim hætti og þannig skilað áfram til íslenskra bænda. Með uppbyggingu á slíkum ræktunarkjarna næst fram aukin skilvirkni í rekstri stöðvarinnar, þar sem kostnaður við innflutt sæði er einungis lítið brot af þeim kostnaði sem fylgir fósturvísainnflutningi og uppsetningu fósturvísanna. Þannig verði rekstrargrundvöllur stöðvarinnar treystur til framtíðar.

 

12. LK hefur nú starfrækt Vefræðslu LK í þrjú ár, hvernig finnst þér þetta verkefni hafa tekist og er eitthvað sem mætti betur fara að þínu mati?

 

Jóhann: Ég tel verkefnið hafa lukkast afar vel og almenn ánægja ríki um þetta framtak, en tel að samtökin þurfi að fá fleiri aðila til liðs við sig varðandi kostun þess til framtíðar litið.

 

Arnar: Veffræðsla LK hefur hlotið góðar viðtökur og skemmst er að minnast ályktunar ungra bænda þar að lútandi. Það eru 370 manns með aðgang núna og fer fjölgandi. Veffræðslan er gott dæmi um nútímavæðingu vinnubragða, góð leið til að koma miklum upplýsingum beint til þeirra sem áhuga hafa á stuttum tíma. Engin spurning í mínum huga að það beri að halda áfram að þróa þessa leið og leggja á það áherslu að virkja fleiri notendur. Samhliða áframhaldandi þróun á þessu mun ég leggja áherslu á aukna notkun samskiptaforrita til að eiga beint og lifandi samtal við félagsmenn, geta á stuttum tíma kannað hug manna til ólíkra málefna, kallað eftir viðbrögðum félagsmanna og áliti á hinum ýmsu málum. Sé fyrir mér mismunandi samtalshópa og að maður tekur svo þátt í því sem maður hefur áhuga á, einfalt, ódýrt og gott!

 

13. Er núverandi aðgengi kúabænda að ráðgjöf nógu góð og ef ekki, hvað er til ráða?

 

Jóhann: Tel að hvað aðgengið varðar þá sé það í allgóðu horfi, en ráðgjöfin sjálf mætti þó að ósekju vera mun öflugri og markvissari.

 

Arnar: Aðgengi að ráðgjöf er örugglega mismunandi eftir landshlutum og búgreinum. RML hefur gengið í gegnum nokkra raun en virðist nú að mínu mati vera að sækja í sig veðrið og var t.a.m. rekið með hagnaði 2015. Á síðustu árum hafa miklar breytingar orðið á ráðgjöf til bænda með tilkomu RML og því breytta fyrirkomulagi sem því fylgdi og eiga trúlega bæði bændur sem og starfsmenn RML enn eftir að aðlaga sig nýjum veruleika í þessum málum. Að mínu mati er ráðgjöf aldrei nóg og alltaf getur maður bætt á sig fróðleik sem nýtist manni við ákvarðanir í búrekstrinum. Rekstarráðgjöf og fóðrunarráðgjöf ættu að vera fyrirferðamest þar sem við horfum fram á sláandi mun á milli búa hvað varðar t.d. breytilegan kostnað við mjólkurframleiðslu þar sem getur munað margföldu! Það sama er svo upp á teningnum þegar skoðaður er munur á meðalnyt á milli búa. Það liggja sjálfsagt margar ástæður að baki þessum mun en þarna er klárlega sóknarfæri fyrir okkur sem bændur.

 

14. Hver er þín afstaða til framleiðslustýringar?

 

Arnar: Framleiðlsustýringakerfi í einhverri mynd hefur sennilega aldrei verið nauðsynlegra á Íslandi. Framleiðlsustýring er góð leið til að tryggja stöðugleika í greininni sem er alger forsenda þessa að öflug mjólkurframleiðsla verði rekinn um allt land. Verði framleiðslan gefin frjáls mun það leiða til mikillar offramleiðslu eins og sjá má að gerst hefur víða um Evrópu, framleiðslan mun „þjappast“ saman á fáa „hagkvæmustu“ staðina, búum mun fækka mikið og þau stækka all verulega til að mæta lækkandi afurðaverði. Það er búið að reyna þetta í Evrópu og nú hrópa t.d. belgar á að framleiðslustýring verði aftur tekin upp hjá þeim. Hvað fær menn til að halda að þetta gangi frekar hjá okkur heldur en annarsstaðar? Viljum við sjá þróunina á þennan hátt? Íslenskir bændur hafa sýnt að þeir geta brugðist við og aukið framleiðslu verulega á stuttum tíma. Framleiðslustýring þarf ekki að þýða mjólkurskort. Það verður ekki framhjá því litið að það má segja að við störfum á lokuðum markaði á meðan við getum ekki afsett í útfluttning á viðunandi verðum, á lokuðum markaði þá getur enginn bætt við sig framleiðslu nema að annar dragi úr. Þetta er veruleiki sem við búum við að sinni en vonandi mun útfluttningsverð fyrir okkar afurðir hækka á komandi árum og þá getum við svo aukið heildarframleiðsluna því jú eins og áður sagði þá getum við bætt í þegar á þarf að halda.

 

Jóhann: Ég tel að gæta þurfi þess að ekki myndist of mikið misvægi á milli framboðs og eftirspurnar mjólkurvara sem unnt er að afsetja á viðunandi verði á markaði hér á landi sem og á erlendum mörkuðum. Með hvaða hætti farsælast er að standa að slíku mun verða eitt af helstu verkefnum stjórnar á komandi árum. Við endurskoðun búvörusamnings 2019 mun fara fram atkvæðagreiðsla á meðal mjólkurframleiðanda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021. Ég hef ekki trú á öðru en þáverandi stjórn samtakanna vinni í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í framhaldinu. Að þessu sögðu er þó afar mikilvægt að hafa það hugfast, að á gildistíma núverandi samnings hefur einu sinni komið upp hráefnisskortur, haustið 2013 og í tvígang hefur legið mjög nærri hráefnisskorti, í ársbyrjun 2006 og haustið 2014. Það er í mínum huga mikilvægt, að sem flestir kúabændur beri ábyrgð á því að takast á við sveiflur í eftirspurn, en ekki bara lítill hluti þeirra eins og raunin hefur verið.

 

15. Það hefur ekki alltaf verið einhugur meðal kúabænda landsins um Landssamband kúabænda. Hvernig sérðu fyrir þér að ná megi breiðari sátt meðal allra kúabænda landsins um starfsemina?

 

Jóhann: Á kjörskrá vegna samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar eru rúmlega 1.200 manns. Í aðildarfélögum LK eru nú um stundir ríflega 1.000 félagar, þannig að sem betur fer sjá flestir nautgripabændur hag sínum best borgið með því að vera aðilar að samtökunum. Í þessum efnum er þó mikilvægt að sofa ekki á verðinum. Eitt af því sem við höfum lært í samningalotunni vegna búvörusamninganna, er að of langur tími hefur liðið frá því að greinin tók síðast grundvallar umræðu um starfsskilyrði greinarinnar. Tilkoma samfélagsmiðla hefur auðveldað aðgengi bænda og annarra þjóðfélagsþegna að slíkum umræðum. Mjög mikilvægt er að samtökin nýti sér í auknum mæli þessar leiðir til skoðanaskipta við félagsmenn sína. Nýr samningur og endurskoðunarákvæði hans bjóða síðan upp á lifandi samræðu um starfsumhverfið á komandi árum. Þetta, ásamt öflugri varðstöðu samtakanna um afkomutengda hagsmuni bænda á öllum sviðum; afsetningu afurða, kynbótastarf, aðfangakostnað, velferð gripa og þjónustu við bændur, vona ég að skapi grundvöll að breiðri sátt um starf Landssambands kúabænda í framtíðinni.

 

Arnar: Ef það er álit einhverra að LK sé ekki að sinna hinum breiða hópi kúabænda þá þurfum við að líta það alvarlegum augum og spyrja okkur að því hvernig geti á því staðið. Sjálfur hef ég heyrt þessa fullyrðingu og á einhverjum timapunkti kannski verið sammála henni. Það er reynsla mín af 12 ára setu minni í sveitarstjórn að óánægja fólks byggir yfirleitt á tvennu, litlum upplýsingum eða röngum upplýsingum. Ef við gætum að því að halda fólki alltaf upplýstu, komum frá okkur eins fljótt og auðið er nýjustu upplýsingum þá fyrirbyggjum við meginþorra þess misskilnings/óánægju sem annars fær að „grassera“ í samfélaginu. Ástundum opin og gegnsæ vinnubrögð og þá verður þetta ekki vandamál. Hafa verður það samt í huga að stundum getur skoðanamunur birst sem óánægja, en þá er mikilvægt einmitt að taka samtalið.

 

/SS.