Beint í efni

Formaður BÍ: Sauðfjárbændur og verðlistar – Í skugga mikilla hækkana aðfanga

19.08.2008

Miðvikudaginn sl. birti Norðlenska matborðið verðskrá fyrir sauðfjárafurðir, fyrst afurðasölufyrirtækja. Í megindráttum býður Norðlenska 15% verðhækkun sem er mun lægra en vonast var eftir.  Hér að neðan bregst Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, við þessu útspili Norðlenska og segir m.a. að ljóst sé að með þessari niðurstöðu séu rekstrarforsendur sauðfjárbænda einfaldlega ekki til staðar lengur.

Með talsverðri eftirvæntingu biðu sauðfjárbændur eftir tilboðum sláturleyfishafa um innleggsverð þetta haustið. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda ályktaði í apríl sl. að verð til bænda þyrfti að lágmarki að hækka um 27% frá verði fyrra árs, eða um 98 krónur á kíló. Vissulega mikil hækkun en fullkomlega í samræmi við breytta rekstrarstöðu sauðfjárbænda. Rétt er að rifja hér upp að 1. maí sl. fengu mjólkurframleiðendur um 28% hækkun á afurðaverð sitt, ákveðna af Verðlagsnefnd búvöru. Sú hækkun var ákveðin á grundvelli hækkana á áburði, sáðvöru, olíu, fóðri, fjármagni og ekki síst launum.  Fóðurkostnaður hefur lagst á framleiðslukostnað alifugla og svínabænda af enn meiri þunga, og er rekstur þeirra búa þungur.

Hækkun kostnaðar við framleiðslu sauðfjárbænda eingöngu vegna áburðarverðs nemur um 64 kr. á hvert kíló af kjöti.

Enn hefur ekki nema einn sláturleyfishafi auglýst verðlista, Norðlenska,  einn helsti sláturleyfishafi landsins. Bændur hafa lýst vonbrigðum með þær hækkanir sem þar eru boðaðar. Stjórnendur Norðlenska rekja í rökstuðningi sínum hvers vegna þeir geta ekki lofað hærra verði. Reyndar er þar gefið í skyn að frekari hækkanir verði, ef aðrir sláturleyfishafar bjóði hærra. Þannig að eitthvert rými er enn og ekki skulum við örvænta strax. Verðlisti Norðlenska þýðir einungis um 58 kr hækkun á kíló frá fyrra ári. Það dugir ekki einu sinni fyrir áburðarhækkuninni, hvað þá öðrum hækkunum, að ekki sé nú talað um laun.

Verði hins vegar ekki veruleg breyting á má ekki gera lítið úr orðum margra sauðfjárbænda um að ekki verði við unað. Með þessari niðurstöðu eru rekstrarforsendur einfaldlega ekki til staðar lengur. Breytingar í kjölfarið hljóta að vera sláturleyfishöfum jafn mikið áhyggjuefni og bændum. Hver verður þróun búskapar og byggðar í sveitum og hvaða áhrif hefur þetta á viðskiptin við sláturleyfishafa til lengri tíma litið?

Höfum við ekki ástæðu til að staldra við og endurmeta stöðu búgreinarinnar? Á fyrsta ári nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar ætla að verða meiri breytingar en voru í sjónmáli við gerð hans. Niðurfelling útflutningsskyldu kemur á sama tíma og tollalækkanir á kjöti koma fram af fullum þunga. Gríðarlegar breytingar eru á rekstrarumhverfi landbúnaðar, líkt og áður var lýst. Óvissa er um áhrif innleiðingar matvælalöggjafar ESB á landbúnaðinn, bæði á bændur og vinnslustöðvar. Efnahagsástand þjóðarinnar er auk þess öllum atvinnurekstri og launþegum verulega erfitt. Verði af nýjum WTO samningi mun það jafnframt hafa veruleg áhrif á landbúnaðinn.

Til að byrja að hugsa um hvernig á til lengri tíma að reyna að vinna þær kjarabætur sem bændur þurfa, mætti velta upp hugmyndum á borð við verkefnið Beint frá býli. Þar leita bændur í meira mæli beint að kaupendum á vöru sinni og selja á grundvelli mikilla gæða. Og gæði kosta. Þarf að skilja betur á milli slátrunar og vinnslu? Sláturhús þurfa og verða að hafa meira sjálfstæði.

Samþætting slátrunar og vinnslu er örugglega hagkvæm, en óljós kostnaðarskipting er þar á milli. Hlutur bænda í útsöluverði verður að hækka. Er staðgreiðsluskylda sláturhúsa endilega besti kosturinn fyrir bændur? Getur verið kostur fyrir bændur að velja um staðgreiðslu eða lánsviðskipti og mynda sterkari tengsl frumframleiðenda og vinnslunnar? Það gætu verið tækifæri í að merkja neysluvöruna einstökum frumframleiðendum og gefa þeim þannig tækifæri til að byggja upp frekari sérstöðu? Á að fresta gildistöku niðurfellingar á útflutningsskyldu eða breyta formi hennar? Skilgreina magn, gólf hennar, til lengri tíma en til eins árs?  Er hugsanlegt að lækka ásetningsskyldu, tímabundið? Slíkt er afar viðkvæmt og áhrifin væntanlega fækkun sauðfjár. En tekið skal fram að aðeins er um vangaveltur að ræða.

Það er í það minnsta ljóst að margir bændur geta ekki lifað af þá miklu kjaraskerðingu sem nú blasir við. Hins vegar er viðkvæmt og erfitt að fjalla um þessi mál í ljósi tilmæla Samkeppniseftirlits til forsvarsmanna fyrirtæka og félagasamtaka um opinbera umræðu um verðlagsmál.