Formaður BÍ gagnrýnir tillögur verkefnisstjórnar um aukna hagsæld
17.05.2013
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, gagnrýndi harðlega tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld varðandi landbúnað á umræðufundi Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja síðasta miðvikudag. Við vinnu verkefnisstjórnarinnar hefðu engir fulltrúar landbúnaðarins verið kallaðir að borðinu og það væri væri með ólíkindum að lagðar væru til róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu í því ljósi.
Í tillögunum er meðal annars tiltekið að samfélagsleg rök fyrir verndun landbúnaðar eigi síður við um alifugla- og svínarækt heldur en aðrar búgreinar. Þar eru greinarnar sagðar verksmiðjubúskapur sem að stórum hluta séu reknar í eða við þéttbýli. Þá er lagt til að afnema ætti að fullu tolla á innflutt svína- og alifuglakjöt og lækka ætti almenna tolla um helming.
Landsbyggðin hunsuð
Sindri sagði á umræðufundinum að hann væri hreinlega gapandi hissa yfir umræddri skýrslu og þeim tillögum sem komi fram í henni. „Ég fagna að sjálfsögðu svona vinnu og hún er mjög mikilvæg. Hins vegar er gagnrýnivert að þetta samráð er mjög takmarkað. Þarna er um að ræða verkefnisstjórn sem skilar af sér tillögum um viðamiklar breytingar á ýmsu í okkar samfélagi. Nánast allir sem koma að umræddri vinnu eru af Suðvesturhorni landsins og landsbyggðin er nær alveg hunsuð. Það er talað um að ekki eigi að sitja hagsmunaaðilar við þetta borð og því séu Bændasamtökin ekki kölluð til. Á sama tíma sitja fulltrúar sjávarútvegsins og atvinnulífsins í þessum samráðsvettvangi. Það er því með ólíkindum að þarna séu lagðar til róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu, án þess að nokkur úr þeim geira sé til kallaður í vinnuna.“
Að mati Sindra eru tillögurnar smíðaðar út frá allt of þröngu sjónarhorni. „Þarna er enn klifað á þeirri gömlu tuggu að svína- og alifuglarækt séu ekki landbúnaður heldur iðnaður og því séu engin rök fyrir því að vernda þann geira. Þegar talað er um hagræðingu í landbúnaði má ekki gleyma því að mikil hagræðing hefur nú þegar átt sér stað. Bændum hefur fækkað og búin hafa stækkað í öllum búgreinum, líka í alifugla- og svínarækt. Þar hefur framleiðendum fækkað mikið og búin stækkað. Það hefur orðið til þess að nú er refsivöndurinn reiddur til höggs og þetta talið til marks um að í greinunum sé rekinn verksmiðjubúskapur. Í öllum viðmiðum sem þekkt eru, t.a.m. hjá OECD og víðar, eru svína- og alifuglarækt talin til landbúnaðar. Stærsta svínabú í Bandaríkjunum er tvöhundruð sinnum stærra en fjöldi allra gylta á Íslandi. Þar má tala um verksmiðjubúskap en ekki hér á landi. Svína- og kjúklingabú eru rekin um allt land, þó stór fyrirtæki í alifuglarækt séu staðsett hér í nágrenni höfuðborgarinnar. Þetta eru því mjög mikilvægar greinar fyrir landbúnaðinn og ekki síður fyrir búsetu í landinu. Það er því mjög sérstakt að í tillögum um aukna hagsæld sé lagt til að leggja niður heilar atvinnugreinar hér á landi, því það er það sem mun gerast verði leyfður óheftur innflutningur á svína- og alifuglakjöti til landsins.“
Vekur ekki tiltrú
Sindri gagnrýndi einnig að í tillögum verkefnisstjórnar samráðsvettvangsins væri ýmislegt sem sýndi fram á ákveðna vanþekkingu. Til að mynda væri þar ruglað saman fæðuöryggi og matvælaöryggi og slíkar rangfærslur vektu ekki tiltrú á vinnunni. „Mér finnst ekki vera gerð nein tilraun til að bera saman gæði innanlandsframleiðslu og gæði búvöru sem hugsanlega yrði flutt til landsins. Á fræðslufundi sem Bændasamtökin héldu um áhættu af innflutningi á kjöti til landsins fyrir skömmu kom mjög skýrt fram að staða svína- og alifuglaræktar er mjög sterk hér á landi með tilliti til sjúkdóma. Þá er dýravelferð hér á mun hærra stigi hér á landi og meiri kröfur gerðar en í nágrannalöndunum. Ef af óheftum innflutningi yrði væri þessum verðmætum fórnað. Það væri ótrúleg skammsýni.“
www.bondi.is greindi frá.