Fonterra stofnar eigið skipafélag!
05.07.2011
Fonterra, samvinnufélag kúabænda í Nýja-Sjálandi, hefur nú tilkynnt um að félagið ætli að stofna eigið fraktflutningafélag ásamt fyrirtækinu Silver Fern Farms, sem er samvinnufélag bænda í kjötframleiðslu. Hið nýja fyrirtæki kallast Kotahi og mun bæði sjá um útflutning félaganna og innflutning aðfanga. Í upphafi stefna félögin á að láta fyrirtækið eingöngu sjá um flutninga fyrir eigendur sína en þegar frá líður stefna þau á það að bjóða fleiri aðilum að nota þjónustu þess.
Í fréttatilkynningu frá Fonterra kemur fram að félögin tvö hafi talið nauðsynlegt að koma Kotahi á koppinn til þess að halda sterkri samkeppnisstöðu á heimsmarkaðinum en útflutningur er, eins og Ný-Sjálendingar kallað það „brauð og smjör“ þeirra! Samtals nam verðmæti útflutnings félaganna tveggja árið 2010 40 milljörðum nýsjálenskra dollara eða um 3.800 milljörðum íslenskra króna! Til þess að setja þetta í smá samhengi þá nam heildarverðmæti vöruútflutnings frá Íslandi árið 2010 561 milljarði króna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, eða sem nemur 15% af verðmætum útflutnings félaganna tveggja í suðri. Það er því ekki undarlegt að félögin tvö vilji stjórna gámaflutningum til og frá landinu með eigin fyrirtæki.
Í sömu tölum frá Hagstofu Íslands kemur fram að útflutningur á landbúnaðarvörum frá Íslandi jókst um 20,6% á árinu 2010 miðað við árið 2009 sem er afar ánægjuleg þróun. Nánar má skoða ýmsar áhugaverðar hagtölur á vef Hagstofunnar: www.hagstofa.is /SS.