
Fonterra stækkar og stækkar
28.12.2017
Nýsjálenska afurðafélagið Fonterra sækir stöðugt fram og eykur umsvif sín og nýjasta dæmið um það er tilkynning stjórnar þess í liðinni viku að til standi að stórauka G-vöru framleiðsluaðstöðu félagsins í Waitoa. Þessi vinnslustöð er reyndar alls ekki gömul og fyrir bara fimm árum var þarna engin vinnsla, en í dag renna út úr vélum vinnslustöðvarinnar 80 þúsund fernur á hverri klukkustund!
En þessi mikla vinnslugeta er s.s. ekki nóg fyrir Fonterra og nú verður vinnslugetan aukin enn frekar og þegar hin nýja viðbót verður komin, verður hægt að pakka 45 tonnum af G-mjólk og G-rjóma í fernur á hverri einustu klukkustund. Þó svo að þessi framleiðslugeta sé gríðarleg er ekki gert ráð fyrir að vélarnar verði á fullu allt árið og því gerir áætlun Fonterra ráð fyrir að ekki „nema“ 250 milljónir lítra muni fara í G-vöru framleiðslu félagsins í Waitoa á ári hverju/SS.