Beint í efni

Fonterra spáir hærra mjólkurverði

29.05.2013

Í gær kynnti nýsjálenska mjólkursamlagið Fonterra spá um mjólkurverð félagsins til bænda á komandi framleiðsluári. Samkvæmt henni gerir félagið ráð fyrir að greiða bændum 7 nýsjálenska dollara pr. kg verðefna, það er um 20% hærra verð en það sem félagið áætlar að verði niðurstaða þess framleiðsluárs sem nú er að líða, 5,80 dollarar pr. kg verðefna. Við þá upphæð bætast 32 sent pr. kg verðefna í arðgreiðslur frá félaginu.

 

Umreiknað yfir í íslenskar krónur er líklegt afurðaverð næsta árs hjá félagsmönnum Fonterra um 56 kr/ltr, en undanfarna mánuði hefur það verið í kringum 48 kr/ltr.

 

Í tilkynningu frá félaginu segir stjórnarformaðurinn John Wilson,  að það sé almennt viðurkennt að heimsmarkaðsverð mjólkurafurða hafi náð hámarki, en að verðið haldist á svipuðu róli út þetta ár og að það verði einnig hátt árið 2014. Hækkun á mjólkurverði á næsta framleiðsluári endurspegli framangreinda stöðu á heimsmarkaðsverði mjólkurafurða.

 

Forstjóri félagsins, Theo Spierings, segir að aukning mjólkurframleiðslunnar á heimsvísu hafi minnkað vegna óhagstæðs tíðarfars í mörgum af mikilvægustu útflutningslöndunum; þokkalegur gangur sé í mjólkurframleiðslunni í Bandaríkjunum en kalt vor í Evrópu hafi haft neikvæð áhrif á mjólkurframleiðsluna og útlitið sé tvísýnt.

 

Spá um aukningu framleiðslunnar þessu ári í 15 helstu mjólkurútflutningslöndum gerir ráð fyrir að hún verði 0,5%, eða 1,2 milljarðar lítra. Það sé mun minni aukning en árið 2012 þegar hún var 1,8%, eða 4,5 milljarðar lítra (samsvarar allri mjólkurframleiðslu Danmerkur).

 

Eins og flestir þekkja er Fonterra einn stærsti útflytjandi á mjólkurafurðum, dufti og smjöri, í veröldinni. Verðhækkun á þessum afurðum mun vonandi leiða til skaplegra verðs á mjólk umfram greiðslumark hjá hérlendum kúabændum./BHB