Beint í efni

Fonterra setur stórbú á fót í Kína

26.07.2011

Nýsjálenska afurðafélagið Fonterra hefur nú fengið leyfi kínverskra yfirvalda til þess að byggja upp nýtt 3.200 kúa bú í Kína. Félagið er nú þegar með tvö stór bú í gangi í landinu eins og greint hefur verið frá hér á naut.is en þetta þriðja kúabú félagsins verður í Hebai héraðinu í austurhluta landsins. Alls er ætlað að fjárfestingin kosti vel á fjórða milljarð króna en alls munu kúabúin þrjú að líkindum framleiða um 90 milljónir lítra mjólkur árlega!

 

Ástæður þess að félagið hefur lagt mikla áherslu á að byggja upp í Kína, í samvinnu við þarlend stjórnvöld, er sú að eftirspurn eftir mjólk og mjólkurvörum hefur stigið verulega þar í landi. Áætlað er að eftirspurnin eigi eftir að þrefaldast á komandi árum og er búist við því að kínverski mjólkurvörumarkaðurinn verði stærsti kaupendamarkaður í heimi næstuáratugi og er ætlað að vöxtur markaðarins verði mældur í tugum prósenta næstu tíu árin. Jafn ljóst er að mikilvægt er hverju afurðafyrirtæki að koma sér fyrir á markaðinum strax í upphafi vaxtarskeiðsins, sem er einmitt það sem nýsjálensku kúabændurnir eru nú að gera/SS.