Fonterra setur enn eitt metið
01.09.2012
Fonterra í Nýja-Sjálandi sló öll fyrri met í útflutningi mjólkurvara síðustu þrjá mánuði (maí-júlí) en alls nam útflutningurinn 620 þúsund tonnum til meira en 100 áfangastaða. Þetta er ótrúlega mikil aukning frá sama tíma í fyrra eða sem nemur um 36% á milli ára. Skýringin felst eðlilega í verulega mikilli aukningu á mjólkurframleiðslunni og hefur söludeild Fonterra brett upp ermarnar. Fram kemur í fréttatilkynningu félagsins að yfirleitt sé eftirspurn eftir mjólkurvörum mikil í aðdraganda Ramadan föstunnar en í ár hafi eftirspurnin verið langt umfram áætlanir.
Til þess að geta mætt hinni miklu eftirspurn hefur Fonterra nú tekið á leigu flutningaskip fyrir duftflutninga sem getur flutt allt að 7.500 tonn í einu og mun verða í siglingum frá Nýja-Sjálandi til bæði Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og til Sádí-Arabíu/SS.