Fonterra með tilraunaeldhús í Kína
29.10.2015
Eins og margoft hefur komið fram vilja flest afurðafélög í heimi komast inn á hinn kínverska markað, enda er verð mjólkurvara þar afar hátt. Hátt afurðaverð skilar sér einnig til kúabænda landsins og fá þeir t.d. eitt hæsta afurðastöðvaverðið í heimi, þrátt fyrir að mörg bú telji þetta fimm til tíu þúsund kýr og ættu nú að geta framleitt mjólk með all hagkvæmum hætti.
En hvernig má stækka þennan hávöruverðsmarkað? Jú Fonterra í Nýja-Sjálandi telur sig hafa fundið lausnina og hefur nú opnað fjögur tilraunaeldhús fyrir starfsfólk í matreiðslugeiranum í þeim tilgangi að auka þekkingu á notkun mjólkurvara við matargerð.
Þessi aðferð er svo sem ekki ný af nálinni og vel þekkt til þess að færa út þekkingu á notkun matvæla. Það er þó nýtt að reka sérstök tilraunaeldhús fyrir í þessum eina tilgangi. Markhópur Fonterra eru starfsmenn pítsustaða og bakaría auk starffólk kaffihúsa, sem eru reyndar ekki mörg enn sem komið er í Kína. Væntingar félagsins eru að ná með þessu aukinni sölu og ekki vanþörf á eigi áætlun félagsins að ganga eftir, en markmiðið er að selja mjólkurvörur í Kína árið 2020 fyrir 1 milljarð nýsjálenskra dollara eða sem nemur um 87 milljörðum íslenskra króna/SS.