Beint í efni

Fonterra með átak gegn heimilisofbeldi

04.12.2017

Nýsjálenski mjólkurrisinn Fonterra hleypti þann 25. nóvember sl. af stokkunum afar áhugaverðu samfélagsverkefni en það snýr að því að vekja athygli á og draga úr heimilisofbeldi. Verkefnið er starfrækt í samstarfi við félagasamtök sem vinna á þessu sviði í landinu og er átakinu aðallega beint til starfsfólks Fonterra, en hjá félaginu starfa rúmlega 12 þúsund manns.

Fonterra hefur sett fram sérstaka starfsmannastefnu sem snýr að heimilisofbeldi og áætlun um það hvernig hægt sé að hjálpa þeim starfsmönnum sem hugsanlega þurfa á aðstoð að halda vegna ofbeldis á heimilum. Félagið er með sérþjálfað starfsfólk sem getur veitt aðstoð, gefur starfsfólki sem upplifir heimilisofbeldi 10 daga frí á launum til þess að takast á við þessi vandamál, veitir þeim lögfræðilega aðstoð og aðra þá aðstoð sem talin er þörf á svo hægt sé að aðstoða viðkomandi með sem bestum hætti.

Heimilisofbeldi er talið eitt af stærsta félagslega vandmálið í Nýja-Sjálandi og landið trónir á toppi þróaðra landa þegar horft er til tíðni skráðra tilvika um heimilisofbeldi. Því skiptir afar miklu máli að stórfyrirtæki eins og Fonterra ríði á vaðið og marki skýra stefnu á þessu sviði segir m.a. í fréttatilkynningu félagsins um þetta átak. 25. nóvember er dagur hvítu slaufunnar, White Ribbon Day, sem er alþjóðlegur dagur gegn heimilisofbeldi og af því tilefni voru tankbílar Fonterra skreyttir hvítum slaufum þann dag eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt/SS.