Beint í efni

Fonterra í Nýja-Sjálandi setur sölumet

25.08.2010

Fonterra, afurðafyrirtæki kúabænda í Nýja-Sjálandi, setti sölumet í lok júlí sl. þegar 12 mánaða útflutningur mjólkurafurða náði nýjum hæðum. Salan sl. 12 mánuði nam alls 2,1 milljónum tonna í fyrsta skipti í 9 ára sögu félagsins, en fyrirtækið skiptir efnahag landsins gríðarlega miklu máli. Útflutningsvörurnar eru aðallega mjólkurduft, smjör og ostar og eru stærstu markaðir Fonterra í Asíu þar sem eftirspurnin er mikil, sérstaklega í Kína. Að sögn Andrew Ferrier, forstjóra Fonterra,

hefur endurreisnin í kjölfar heimskreppunnar verið leidd af löndum í Asíu og með afar góðri sölu Fonterra hefur tekist að minnka stórlega neikvæð áhrif efnahagsástandsins á Nýja-Sjáland, enda mjólkuframleiðsla ein mikilvægasta atvinnugreinin í landinu.

 

„Það er ánægjulegt að okkur hafi tekist að forða landinu frá verstu áhrifum efnahagsástandsins með því að ná jafn góðum árangri í útflutningi og raun ber vitni um“, segir Andrew í fréttatilkynningu Fonterra, en útflutningsverðmæti þessa eina fyrirtækis nemur 25% af heildar verðmæti útflutnings Nýja-Sjálands. Til samanburðar má geta þess að árið 2008 námu heildarútflutningstekjur af áli á Íslandi 29%. Þrátt fyrir sölumet núna, er allt útlit fyrir að mjólkurframleiðslan í Nýja Sjálandi eigi eftir að aukast enn frekar samhliða bættum efnahag í Asíu, þar sem eftirspurn eftir mjólkurvörum virðist vera takmarkalítil.

 

Ef hve mikill er þessi útflutningur í raun? Útflutningsmagnið frá Fonterra nemur 140 þúsund 20 feta gámum sl. 12 mánuði. Að meðaltali sendir fyrirtækið frá sér 380 20 feta gáma á dag og þarf til flutninganna daglega að jafnaði 7 Kiwi-flutningalestir, eins og þær kallast þarna niðurfrá.