Beint í efni

Fonterra: Fyrsta nýja samlagið í 14 ár

15.03.2012

Framkvæmdir við fyrsta nýja mjólkursamlagið sem nýsjálenski mjólkurrisinn Fonterra hefur byggt á umliðnum 14 árum ganga vel. Áætlað er að samlagið sem verður staðsett í Darfield á Suðureyjunni, um 50 km vestur af Christchurch, verði komið í rekstur í ágúst n.k. Þegar hefur verið ákveðið að hafa stöðina stærri en upphaflega var áætlað, ætlunin er að bæta við öðrum duftþurrkara sem verði kominn í rekstur að ári. Verður þá heildar afkastagetan 4,4 milljónir lítra mjólkur á dag (árlega duftframleiðslu hérlendis væri hægt að keyra í gegnum samlag þetta á nokkrum dögum…). Uppbygging samlagsins í Darfield kemur til móts við mjög vaxandi mjólkurframleiðslu á Suðureyjunni, aukningu sem hefur orðið mun meiri en ráð var gert fyrir, þegar ákvörðun um byggingu samlagsins var tekin árið 2009. Alls er áætlað að starfsmenn þar verði 160 og mjólkurduft frá stöðinni fari á markað í Miðausturlöndum, Suðaustur-Asíu og Kína./BHB

 

Heimild: Dairy Industry Newsletter