Fonterra eykur framleiðslu á G-vörum
17.09.2010
Fonterra í Nýja-Sjálandi, sem byggir sína afkomu að mestu á útflutningi mjólkurvara, hefur nú tekið í notkun nýja framleiðslulínu sem eykur heildarframleiðslu afurðastöðvarinnar um 600 þúsund lítra á viku af G-mjólk. Nýja framleiðslulínan er í bænum Takanini í Auckland en þar er fyrir hluti af vinnslu Fonterra. Um er að ræða eitt af mörgum skrefum fyrirtækisins til þess að ná betri tökum á útflutningsmörkuðum í Asíu og Kyrrahafslöndunum en Fonterra stefnir að því að auka vöruframleiðslu sína um 30%. Talið er að heildarneysla á mjólk með langt geymsluþol muni aukast um 5,2% á ári næstu tvö árin sem gerir þessa
mjólkurvöru þá vöru sem er í mestri sókn á heimsmarkaði.
Fonterra byrjaði að framleiða G-mjólk árið 1981 og var heildarframleiðsla afurðastöðvarinnar það ár 5 milljón lítrar G-mjólkur. Aukinn útflutningur leiddi svo til þess að árið 2005 hafði heildarframleiðslan vaxið í 27 milljón lítra á ári og síðan þá hefur framleiðslan verið tvöfölduð eða í 60 milljón lítra á ári. Eftir framangreinda framleiðsluaukningu getur Fonterra nú framleitt 90 milljón lítra G-mjólkurferna á ári eða 1,7 milljónir lítersferna á viku hverri.
Skýringin á þessum mikla vexti í mjólkursölu á mörkuðum í Asíu má finna í auknum mannfjölda auk bætts aðgengis fólks að upplýsingum um hollustu mjólkurvara. Vegna þessa hefur Fonterra nú einnig ákveðið að fara út í fleiri vörulínur með langt geymsluþol (9 mánuði) og hefur þróunarsvið fyrirtækisins nú komið fram með bæði G-léttmjólk og G-vítamínbætta mjólk. Auk þess mun verða boðið upp á nokkrar gerðir af G-rjóma á næstunni, þar af nýja gerð sem auðvelt er að þeyta, en það hefur verið erfitt með G-rjóma til þessa.